Körfubolti

Frakkar flugu í úrslit með risasigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Frakkar eru á leið í úrslitaleik Evrópumótsins í körfubolta.
Frakkar eru á leið í úrslitaleik Evrópumótsins í körfubolta. Maja Hitij/Getty Images

Frakkar tryggðu sér farseðilinn í úrslit Evrópumótsins í körfubolta með afar öruggum 41 stigs sigri gegn Pólverjum í dag, 95-54.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta þar sem fá stig voru sett á töfluna. Frakkar höfðu þó tekið forystuna og leiddu með sex stigum að honum loknum, 15-9.

Pólverjar voru enn í vandræðum með að koma stigum á töfluna í öðrum leikhluta, en Frakkar vöknuðu til lífsins og munurinn var orðinn 16 stig þegar flautað var til hálfleiks, staðan 34-18 þegar gengið var til búningherbergja.

Frakkar héldu áfram að auka forskot sitt eftir hálfleikshléið og þegar komið var að lokaleikhlutanum var staðan orðin 64-36, Frökkum í vil.

Fjórði og seinasti leikhlutinn var því hálfgert formsatriði fyrir Frakkana sem unnu að lokum vægast sagt sannfærandi 41 stigs sigur, 95-54.

Frakkar eru því á leið í úrslit Evrópumótsins í körfubolta þar sem liðið mætir annað hvort Þjóðverjum eða Spánverjum, en undanúrslitaleikur þeirra fer fram síðar í kvöld. Pólverjar verða hins vegar að lát sér nægja að leika um þriðja sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×