Innlent

Maður og kona réðust á dreng og flúðu vett­vang

Bjarki Sigurðsson skrifar
Lögregla er ekki með frekari upplýsingar um parið.
Lögregla er ekki með frekari upplýsingar um parið. Vísir/Kolbeinn Tumi

Lögreglu barst tilkynning í gær um að maður og kona hafi ráðist á dreng og sparkað í hann. Þegar lögregla kom á staðinn voru þau farin en lögreglu hefur ekki tekist að bera kennsl á parið.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Árásin átti sér stað í umdæmi lögreglustöðvar 1, það er Austurbæ, Vesturbæ, miðborg eða Seltjarnarnesi. Stúlka er grunuð um líkamsárás á svipuðum slóðum og var vistuð í fangageymslu vegna þess. Fórnarlamb hennar var flutt á slysadeild til aðhlynningar.

Í nótt var karlmaður til vandræða á skemmtistað og þegar lögregla kom á staðinn voru dyraverðir með hann í tökum. Hann var fjarlægður og komið heim til sín.

Í umdæmi lögreglustöðvar 3, Kópavogi og Breiðholti, hafði lögreglan afskipti af tveimur sem gátu ekki greitt fyrir leigubíl. Bílstjórinn kærir fólkið fyrir fjársvik.

Drengur var í annarlegu ástandi í umdæmi lögreglustöðvar 4, Grafarvogi, Árbæ og Mosfellsbæ, var vistaður í fangageymslu, grunaður um líkamsárás og fleira. Drengurinn er undir átján ára aldri og var því Barnavernd látin vita af málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×