Fótbolti

Mbappé neitar að mæta í mynda­töku franska lands­liðsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kylian Mbappé er skærasta stjarna Frakklands.
Kylian Mbappé er skærasta stjarna Frakklands. EPA-EFE/Marko Djurica

Kylian Mbappé, leikmaður Frakklandsmeistara París Saint-Germain og ein aðalstjarna franska landsliðsins í fótbolta, hefur neitað að taka þátt í liðsmyndatöku með landsliðinu sem fram á að fara á morgun, þriðjudag.

Mbappé hefur verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur og mánuði. Í sumar endursamdi hann við PSG og varð um leið launahæsti fótboltamaður heims. Þá má segja að hann hafi fengið lyklana að PSG en talið er að framherjinn hafi nú mikið um það að segja hvaða leikmenn liðið kaupi og hvernig í raun öllu sé háttað.

Samkvæmt frétt L'Équipe þá neitar leikmaðurinn að taka þátt í myndatöku með samherjum sínum í franska landsliðinu. Ástæðan er sú að franska knattspyrnusambandið hefur ekki viljað skoða það að breyta ímynarrétti leikmanna.

Hófst togstreitan milli umboðsstofu Mbappé og franska knattspyrnusambandsins í mars á þessu ári. Mbappé og teymi hans taldi að sambandið væri að nota ímynd ákveðinna leikmanna mun meira en annarra. Einnig virðist teymi Mbappé ósátt með hvaða merki og vörulínur eru tengdar við franska landsliðið. Þar sem franska sambandið hefur ekki viljað breyta neinu þá ætlar Mbappé ekki að mæta í myndatökur með liðsfélögum sínum.

Hinn 23 ára gamli Mbappé hefur byrjað tímabilið frábærlega og skorað 9 mörk í 10 leikjum í frönsku úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu. Hann hefur spilað 57 A-landsleiki fyrir Frakkland og skorað í þeim 27 mörk. Þar á meðal eitt þegar Frakkland varð heimsmeistari sumarið 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×