Innlent

„Mildi að engan sakaði“

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá aðgerðum sérsveitarinnar í Mosfellsbæ í dag.
Frá aðgerðum sérsveitarinnar í Mosfellsbæ í dag. Vísir/Bjarni

Ríkislögreglustjóri segir hættuástandi hafa verið afstýrt í dag. Fjórir voru handteknir af sérsveit ríkislögreglustjóra en í yfirlýsingu segir að tveir þeirra hafi verið taldir vopnaðir og hættulegir og að handtökurnar snúi að skipulagðri glæpastarfsemi og vopnalagabrotum.

„Það er mildi að engan sakaði í aðgerðum lögreglu en handtaka fór skjótt og vel fram,“ segir í yfirlýsingu frá ríkislögreglustjóra. Þar segir að viðbúnaður hafi verið umfangsmikill og að hættuástandi hafi verið afstýrt.

Aðgerðir sérsveitarinnar eru sagðar hafa verið umfangsmiklar og farið fram víða á höfuðborgarsvæðinu. Meðal annars í Holtasmára í Kópavogi og í iðnaðarhverfi í Mosfellsbæ.

Sjá einnig: Sérsveitin í aðgerð á iðnaðarsvæði í Mosfellsbæ

Ríkislögreglustjóri segir málið tengjast yfirstandandi rannsókn á skipulagðri glæpastarfsemi og vopnalagabrotum.

Í áðurnefndri yfirlýsingu segir að rannsóknin sé „í höndum embættis ríkislögreglustjóra sem hefur það hlutverk að rannsaka öll þau brot sem snúa að landráði, broti gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess.“

Samskiptastjóri ríkislögreglustjóra segir að engar frekari upplýsingar verði veittar um málið í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×