Viðskipti erlent

Twitch bannar fjár­hættu­spila­streymi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Flestir nota Twitch til að horfa á aðra spila tölvuleiki en nýlega fóru streymi af fólki stunda fjárhættuspil að verða vinsæl.
Flestir nota Twitch til að horfa á aðra spila tölvuleiki en nýlega fóru streymi af fólki stunda fjárhættuspil að verða vinsæl. Getty/Silas Stein

Frá og með 18. október næstkomandi munu notendur streymissíðunnar Twitch ekki geta streymt frá því þegar þeir stunda fjárhættuspil á netinu, nema að vefsíðan sem þeir nota sé skráð í Bandaríkjunum. Fjárhættuspilastreymi hafa aukist gríðarlega í vinsældum upp á síðkastið.

Fjárhættuspilastreymi á Twitch náðu hápunkti sínum í síðasta mánuði þegar notendur eyddu alls 50 milljónum klukkutíma í að horfa á slík streymi, en að meðaltali voru sjötíu þúsund notendur að horfa á streymin að hverju sinni samkvæmt TwitchTracker. Þegar mest lét á í ágúst voru tæplega 300 þúsund áhorfendur að horfa. 

Flestir nota Twitch til að streyma frá og fylgjast með öðrum spilatölvuleiki en einnig eru dæmi um fólk sem notar vefsíðuna til að spjalla við aðdáendur sína eða sýna frá stórum viðburðum. 

Twitch hefur aftur á móti orðið fyrir mikilli gagnrýni vegna streymanna. Í rauninni getur hver sem er, sama hversu gamall hann er, horft á einhvern eyða tugum, jafnvel hundruðu, milljónum króna á örfáum klukkutímum. Þegar peningurinn hverfur er þó ekki mesta áhyggjuefnið, heldur er það þegar streymararnir vinna háar upphæðir.

Það býr til falska von meðal áhorfenda, en oft á tíðum er þetta ekki alvöru peningur sem verið er að nota. Stærstu streymararnir eru í samstarfi með netspilavítunum og fá þar af leiðandi inneign. Til dæmis setur notandi inn þúsund krónur en fær tíu þúsund krónur inn á aðganginn. Þegar hann ætlar síðan að taka peninginn út fær hann einungis tíu prósent af upphæðinni.

Einn vinsælasti fjárhættuspilastreymarinn kallar sig Trainwreck. Hann laðar iðulega að um fjörutíu þúsund áhorfendur á hverri stundu. Á níu mánuðum tókst honum að tapa 23 milljónum dollara, 3,2 milljörðum íslenskra króna, með því að stunda fjárhættuspil.

Twitch birti í gær færslu á Twitter-síðu sinni þar sem tilkynnt var um að veitan ætlaði að banna streymi sem innihalda spilakassa, rúllettu eða teningaleiki á vefsíðum sem ekki eru skráðar í Bandaríkjunum. Vinsælasta vefsíðan, stake.com, sem er meðal annars framan á treyjum enska knattspyrnu liðsins Everton, er til að mynda skráð í Curacao og verður því ekki leyfileg.

Trainwreck sjálfur var mjög harðorður á Twitter-síðu sinni eftir að hann frétti af áformum Twitch. Hann benti á misræmi þess að í boði verður að streyma frá því þegar verið er að veðja á íþróttaleiki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×