Þetta kom fram í máli Katrínar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Þar spurði Arndís Anna Kristíndardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, Katrínu út í mál fjögurra blaðamanna sem eru með stöðu sakbornings í tengslum við fréttaflutning af hinni svokölluðu Skæruliðadeild Samherja.
Vísaði Arndís þar meðal annars í Facebook-færslur Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann hefur meðal annars sagt að blaðamenn þurfi að þola það að sæta rannsókn ef tilefni er talið til, líkt og aðrir borgarar landsins.
Spurði Arndís Katrínu hvort að hún teldi ekkert athugavert við vinnubrögð lögreglu í málinu, eða hvort hún tæki undir afstöðu Bjarna, samráðherra hennar í ríkisstjórninni.
Minnti á fyrri verk
Svaraði Katrín því að hún hafi haft það fyrir sið að tjá sig ekki um mál sem væru til rannsóknar og að henni finndist „nokkuð eðlilegt fyrir ráðherra að gera það ekki,“ eins og hún orðaði það.
Þá rifjaði Katrín einnig upp að hún hafi í gegnum tíðina látið verkin tala þegar kemur að lagasetningu sem sneri að aukinni vernd heimildarmanna fjölmiðla. Um það hefur meðal annars verið tekist á um í máli blaðamannanna fjögurra: Ákvæði í lögum um fjölmiðla sem meinar blaðamönnum að upplýsa um heimildarmenn sína. Lögin voru sett árið 2011 er Katrín gegndi embætti menntamálaráðherra.
„Þannig að ef háttvirtur þingmaður velkist í vafa um mína afstöðu bendi ég henni á þau mál sem ég hef hér lagt fram og fengið samþykkt,“ sagði Katrín. Hún bætti þó við að hún teldi að lögregla þyrfti að stíga varlega til jarðar við rannsóknir sem beindust gegn fjölmiðlum.

„Ég tel ljóst að í svona málum, og hef sömuleiðis sagt það, að lögreglan verði að vera mjög meðvituð um það að allar rannsóknaraðgerðir sem beinast gegn fjölmiðlum geta haft fælingaráhrif gagnvart þeim fjölmiðlum. Því ber lögreglunni að fara sérstaklega varlega þegar um er að ræða frjálsa fjölmiðla sem eru að fjalla um viðkvæm mál í samfélaginu í sínum rannsóknum.“
Arndís steig aftur í pontu og spurði Katrínu þá nánar út í Facebook-færslur Bjarna Benediktssonar um málið, sem meðal annars hafa sætt gagnrýni fagfélags blaðamanna hér á landi. Vildi Arndís fá afstöðu Katrínar gagnvart þeim.
„Það þarf ekki að koma háttvirtum þingmanni á óvart að ráðherrar í ríkisstjórn séu ekki allir með einu og sömu ríkisskoðunina þegar um er að ræða þrjá ólíka flokka,“ sagði Katrín og bætti enn fremur við að landsmenn verði að treysta því að réttarkerfi og lögregla starfi samkvæmt þeim lögum sem sett hafa verið.