Lögregla boðaði til blaðamannafundar í gær vegna málsins en rannsóknin er sögð á frumstigum. Lagt var hald á fjölda skotvopna, síma og tölva, sem nú verður rannsakaður. Fjórir voru handteknir og tveir úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins, annar í viku og hinn í tvær vikur. Lögregla telur sig með aðgerðunum hafa afstýrt hryðjuverkaárás hér á landi.
Í hádegisfréttum RÚV í dag kom fram, samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV, að mennirnir tveir sem voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald hafi rætt um að fremja fjöldamorð á árshátíð lögreglumanna í næstu viku. Rafræn gögn sýni samskipti á milli þeirra þar sem orðalagið „fjöldamorð“ var notað. Lögreglumenn, Alþingi og fleira hafi verið nefnt í því samhengi.
Lögregla hefur haldið spilunum þétt að sér og ekki gefið upp mikið um hina fyrirhuguðu árás sem sögð er hafa verið yfirvofandi. Morgunblaðið greindi frá því í morgun að lögreglu hafi sett vörð um Alþingishúsið og þá greinir blaðið frá því að sjónir mannanna kunni að hafa beinst að árshátíð lögreglumanna, sem átti að fara fram í næstu viku.
Vísir mun fylgjast með vendingum dagsins í málinu í Vaktinni sem nálgast má hér að neðan. Þar munum við miðla því sem fram kemur um málið í dag.