Erlent

Hljóta Nóbels­verð­laun fyrir rann­sóknir á sviði smell­efna­fræði

Atli Ísleifsson skrifar
Carolyn R. Bertozzi frá Bandaríkjunum, Morten Meldal frá Danmörku and K. Barry Sharpless frá Bandaríkjunum.
Carolyn R. Bertozzi frá Bandaríkjunum, Morten Meldal frá Danmörku and K. Barry Sharpless frá Bandaríkjunum. Nóbel

Efnafræðingarnir Carolyn R. Bertozzi frá Bandaríkjunum, Morten Meldal frá Danmörku and K. Barry Sharpless frá Bandaríkjunum hljóta Nóbelsverðlaunin í efnafræði í ár. Þeir fá verðlaunin fyrir rannsóknir sínar á sviði smellefnafræði.

Sænska vísindaakademían tilkynnti um þetta á fréttamannafundi sem hófst klukkan 9:45 að íslenskum tíma.

Smellefnafræði er aðferð í efnasmíðum sem kom fyrst fram á sjónarsviðið um aldamótum og er tilgangur hennar að einfalda efnasmíðar á stórum sameindum og þannig gera þær fljótvirkar og skilvirkari.

Carolyn R. Bertozzi starfar við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum, Meldal við Kaupmannahafnarháskóla og Sharpless við Dartmouth, Harvard og Stanford. Sharpless hefur áður hlotið Nóbelsverðlaunin í efnafræði, eða árið 2001.

Þjóðverjinn Benjamin List og Bandaríkjamaðurinn David W.C. MacMillan hlutu á síðasta ári Nóbelsverðlaunin í efnafræði fyrir þróun á ósamhverfum lífrænum efnahvötum (e. assymetric organocatalysis).

Fyrr í vikunni var greint frá því að sænski erfðafræðingurinn Svante Pääbo hafi hlotið Nóbelsverðlaunin í lífefnafræði og læknisfræði í ár fyrir rannsóknir sínar á erfðamengi útdauðra manntegunda og þróun mannsins. Þá var tilkynnt í gær að eðlisfræðingarnir Alain Aspect frá Frakklandi, John F. Clauser frá Bandaríkjunum og Anton Zeilinger frá Austurríki hafi hlotið Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði fyrir rannsóknir sínar á sviði skammtafræði.

Tilkynnt um handhafa Nóbelsverðlauna 2022

  • Mánudagur 3. október: Lífefna- og læknisfræði
  • Þriðjudagur 4. okótber: Eðlisfræði
  • Miðvikudagur 5. október: Efnafræði
  • Fimmtudagur 6. október: Bókmenntir
  • Föstudagur 7. október: Friðarverðlaun Nóbels
  • Mánudagur 10. október: Hagfræðiverðlaun Seðlabanka Svíþjóðar

Fréttin verður uppfærð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×