Það var tiltölulega fyrirséð að til vægrar vaxtahækkunar kæmi í ákvörðun Seðlabankans í gær, 0,25 prósentustig. En það sem hefur vakið meiri athygli eru ummæli seðlabankastjóra. Hann sagði að seðlabankinn hefði nú lagt sitt af mörkum og spurði hvort stjórnvöld og vinnumarkaðurinn hygðust nú gera slíkt hið sama.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, segir þessi skilaboð seðlabanka fyrirsjáanleg en engu að síður sorgleg.
„Mér hlýtur að finnast það alveg skelfilegt að því leytinu til að þegar við semjum um 90 þúsund króna hækkun í fjögurra ára samningi, sem gerir í kringum 23-24 þúsund krónur á ári í launahækkun, að á síðustu 12-15 mánuðum hefur bara vaxtahækkunin ein og sér þurrkað upp allan þennan ávinning. Ef Seðlabankinn telur að þetta sé gert með hag heimilanna eða launafólks að leiðarljósi, þá skil ég ekki orðið hagfræði í íslensku samfélagi,“ segir Vilhjálmur.
Vilhjálmur segir að í lífskjarasamningum 2019 hafi verið fallist á hófstilltar launahækkanir þar sem í staðinn áttu að koma vaxtalækkanir sem myndu auka ráðstöfunartekjur fólks. Vextirnir voru í 4,25% þegar samið var og þeir fóru niður í 0,75. Nú eru þeir aftur komnir í 5,75%. Launafólk hafi í millitíðinni staðið við allt sitt - þannig að aðrir þurfi nú að axla ábyrgðina.
Ef skilaboðin eru þau að ekki sé hægt að sækja launahækkanir í komandi kjarasamningum, talar Vilhjálmur á þá leið að ekki sé hægt að verða við því.
„Það liggur alveg fyrir að það er ekki hægt að leggja á herðar launafólks látlaust tugþúsundahækkanir á útgjöldum heimilanna í hverjum einasta mánuði. Eina tækifærið sem launafólk hefur til að rétta sinn hag af er þegar kjarasamningar eru lausir,“ segir Vilhjálmur.
Fjallað var um vaxtahækkanir, nýju snjóhengjuna og rætt var við Konráð Guðjónsson ráðgjafa SA í Íslandi í dag í gærkvöld: