Innlent

Fallist á kröfu um áframhaldandi einangrun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Karlmaðurinn leiddur út úr Héraðsdómi Reykjavíkur að loknum uppkvaðningi úrskurðar.
Karlmaðurinn leiddur út úr Héraðsdómi Reykjavíkur að loknum uppkvaðningi úrskurðar. vísir

Karlmaður á þrítugsaldri sem lögreglu grunar um að hafa haft í hyggju að undirbúa hryðjuverk hér á landi var á tólfta tímanum úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald og einangrun til tveggja vikna.

Ómar Örn Bjarnþórsson, verjandi mannsins, hefur þegar kært úrskurðinn til Landsréttar. Karlmaðurinn hefur verið í nær óslitnu gæsluvarðhaldi í þrjár vikur. Lögregla krafðist tveggja vikna einangrunar og féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á kröfuna.

Meintur samverkamaður hans verður leiddur fyrir dómara eftir hádegið og má telja allar líkur á að gerð verði sama krafa um varðhald. Sá hefur verið í einangrun í tvær vikur.

Gæsluvarðhald yfir báðum átti að renna út síðdegis.

Klippa: Úrskurðaður í tveggja vikna einangrun til viðbótar

Fjórir menn voru upphaflega handteknir í aðgerðum lögreglu þann 21. september síðastliðinn og voru tveir úrskurðaðir í gæsluvarðhald í kjölfarið, einn í einnar viku og annar í tveggja vikna gæsluvarðhald.

Lagt var hald á tugi skotvopna og þrívíddarprentara í aðgerðum lögreglu en mennirnir eru grunaðir um að hafa framleitt vopn í þeim.

Á fréttamannafundi lögreglunnar í síðustu viku kom fram að í sautján húsleitum vegna málsins hafi verið lagt hald á tugi skotvopna, og þar af nokkur þrívíddarprentuð vopn. Meirihluti vopnanna hafi verið verksmiðjuframleiddur.

Einnig kom fram í síðustu viku af Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri hafi sagt sig frá rannsókn á málinu vegna mögulegs vanhæfis. Samkvæmt heimildum fréttastofu var það vegna þess að nafn föður hennar kom upp við skýrslutökur sakborninga hjá lögreglu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×