Maðurinn var upphaflega dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í 2,5 árs fangelsi fyrir að stórfellda líkamsárás gegn eiginkonu sinni. Árásin átti sér stað á Hótel Borg í Reykjavík í janúar á síðasta ári. Hann hafði verið ákærður fyrir tilraun til manndráps en héraðsdómur sýknaði hann af þeirri ákæru.
Maðurinn hafði ráðist á eiginkonu sína og ógnað lífi hennar, heilsu og velferð með því að stappa ítrekað á hægri hlið líkama hennar. Konan hlaut mörg rifbeinsbrot, mar á lifur, áverkaloftbrjóst, áverkahúðbeðsþembu, mar á lunga og áverkafleðruholsblæðingu.
Dómi héraðsdóms var skotið til Landsréttar þar sem hann var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps og dæmdur í sex ára fangelsi. Landsréttur vísaði til þess að hending ein hafi ráðið því að árásin hafi ekki verið lífshættuleg, atlaga hans hafi verið ofsafengin og hún falið í sér síendurtekin högg.
Í maí á þessu ári hlaut maðurinn áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar og kvað dómurinn upp dóm sinn fyrr í dag. Þar var maðurinn dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Þá þarf hann að greiða fórnarlambi sínu þrjár milljónir króna í skaðabætur.