Innlent

„Við verðum að grípa í taumana“

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifa

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata og einn flutningsaðila tillögu um yfirlýsingu neyðarástands í loftslagsmálum sagði í ræðu sinni á Alþingi í dag að stjórnvöld víðs vegar um heiminn væru að bregðast jörðinni. Nauðsynlegt sé fyrir stjórnvöld að lýsa yfir neyðarástandi.

Í samtali við fréttastofu segir Andrés málið snúast um forgangsröðun stjórnvalda þegar kemur að loftslagsmálum, að þau skipti máli. Nauðsynlegt sé fyrir ríkisstjórnina að horfast í augu við stöðuna.

„Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi í fimm ár verið að monta sig af því að vera sú metnaðarfyllsta í Íslandssögunni í loftslagsmálum þá er hún miklu meira að tala en að gera. Tölurnar eru bara farnar að sýna okkur það að á síðasta ári jókst losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum og það er bara afrakstur af allt of litlum metnaði stjórnarinnar,“ segir Andrés Ingi.

Hann segir Alþingi þurfa að bregðast við þeirri stöðu sem upp sé komin en engar líkur séu á að ríkisstjórnin geti sammælst um nægilega róttækar aðgerðir í loftslagsmálum. Hann játar því að ekki sé nógu mikil samstaða innan ríkisstjórnar um þessi mál og kallar það pólitískt neyðarástand.

„Við sem Alþingi, sem fulltrúar alls almennings og sem fólkið sem ber ábyrgð á að næstu kynslóðir geti átt hér sómasamlegt líf líka, við verðum bara að grípa í taumana,“ segir Andrés Ingi.

Viðtalið við Andrés Inga ásamt ræðu hans á þingi í dag má sjá hér að ofan. 


Tengdar fréttir

Vilja að ný ríkis­stjórn lýsi yfir neyðar­á­standi í lofts­lags­málum

Land­vernd, Náttúru­verndar­sam­tök Ís­lands og Ungir um­hverfis­sinnar krefjast þess að lofts­lags­mál verði í kjarna nýs ríkis­stjórnar­sam­starfs og að þau komi sér strax að verki. Segja þau að síðast­liðin fjögur ár hafi lofts­lags­stefna stjórn­valda verið „ó­full­nægjandi og ein­kennst af hálf­káki.“

Ekki nóg að lýsa yfir neyðarástandi

Yfirlýsingar um neyðarástand vegna loftslagsmála eru til lítils ef ekki fylgja aðgerðir, segir umhverfisráðherra. Til greina komi að Íslendingar lýsi yfir neyðarástandi en meira þurfi til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×