Fótbolti

Boltinn sem Maradona skoraði með hendi Guðs á leið á uppboð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Diego Maradona skorar með hendi guðs.
Diego Maradona skorar með hendi guðs. getty/Etsuo Hara

Boltinn sem eitt frægasta mark fótboltasögunnar var skorað með er á leið á uppboð. Talið er að hann verði seldur á allt að 490 milljónir íslenskra króna.

Diego Maradona skoraði tvö af frægustu mörkum fótboltasögunnar í sama leiknum, þegar Argentína og England áttust við í átta liða úrslitum HM í Mexíkó 1986. Seinna markið skoraði Maradona eftir mikinn einleik en það fyrra með höndinni; hönd guðs eins og hann sagði.

Á 51. mínútu leiksins fyrir 36 árum stökk Maradona upp með Peter Shilton, markverði Englands, og sló boltann yfir hann og í markið. Túnisinn Ali Bin Nasser sá ekkert athugavert og dæmdi markið gilt. Fjórum mínútum síðar kom Maradona Argentínu í 2-0. Gary Lineker minnkaði muninn í 2-1 níu mínútum fyrir leikslok en nær komst England ekki. Argentínumenn fóru svo alla leið og urðu heimsmeistarar í annað sinn.

Boltinn sem var notaður í leik Argentínu og Englands hefur hingað til verið í eigu Bin Nassars en nú hefur hann ákveðið að selja dýrgripinn. „Boltinn er hluti af fótboltasögunni og það er tími til kominn að deila honum með heimsbyggðinni,“ sagði Bin Nassar.

Boltinn verður boðinn upp 16. nóvember, fjórum dögum áður en HM í Katar hefst. Hægt verður að bjóða í boltann frá og með 28. október. Talið er að boltinn muni seljast á allt að þrjár milljónir punda, eða tæplega 490 milljónir íslenskra króna.

Í maí á þessu ári var treyjan sem Maradona spilaði leikinn gegn Englandi í seld á 7,4 milljónir punda á uppboði. Það gerir 1,2 milljarð íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×