Fótbolti

Klopp í viðtali við Gumma Ben: „Þarft leikmenn til að klára dæmið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp sýndi tennurnar í viðtalinu við Gumma Ben.
Jürgen Klopp sýndi tennurnar í viðtalinu við Gumma Ben. stöð 2 sport

Guðmundur Benediktsson og Baldur Sigurðsson voru á Ibrox þegar Liverpool vann stórsigur á Rangers, 1-7, í Meistaradeild Evrópu. Eftir leikinn ræddi Gummi við Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool.

Klopp á það til að taka pirring sinn út á fjölmiðlamönnum á blaðamannafundum og í viðtölum eftir leiki. En eftir viðureignina á Ibrox í gær var lítið til að vera pirraður yfir og Klopp var ljúfur sem lamb við Gumma. Þjóðverjinn var sáttur með allan leikinn, þrátt fyrir að Liverpool hafi lent undir í áttunda sinn á tímabilinu.

„Við brugðumst vel við. Við spiluðum góðan leik. Markið þeirra kom ekki upp úr engu en þetta var staða þar sem við vorum nálægt því að vinna boltann og þeir komust milli miðvarðanna. Þetta var líka vel spilað,“ sagði Klopp við Gumma.

„Í fótbolta, og lífinu öllu, snýst þetta allt um hvernig þú bregst við og við skoruðum mark eftir fast leikatriði. Og við spiluðum mjög góðan fótbolta í fyrri hálfleik. Við vissum að ef við myndum spila meiri fótbolta og kæmum hreyfingu á þá kæmumst við í góðar stöður og þetta yrði erfitt fyrir þá.“

Roberto Firmino skoraði fyrstu tvö mörk Liverpool og lagði það þriðja upp fyrir Darwin Nunez. Síðan var komið að þætti Mohameds Salah sem skoraði þrjú mörk á sex mínútum. Aldrei hefur einn leikmaður verið sneggri að skora þrennu í Meistaradeildinni og Salah í gær. Harvey Elliott skoraði svo sjöunda og síðasta mark Liverpool.

„Þú þarft leikmenn til að klára dæmið. Það er eitt að búa til stöðurnar, annað að klára þær og við gerðum það frábærlega. Þetta voru frekar ýktar lokatölur,“ sagði Klopp. „Mér fannst allir spila vel. Við vitum hversu góðir við erum. Við þurfum að sýna það reglulega.“

Klippa: Klopp í viðtali við Gumma Ben

Það er skammt stórra högga á milli hjá Liverpool því á sunnudaginn mætir liðið Englandsmeisturum Manchester City í ensku úrvalsdeildinni.

„Það er mjög spennandi en núna erum við ekki sigurstranglegri. En það er allt í lagi. Það er svo sem ekki hægt að segja mikið um það í kvöld. Allir vita hversu mikil áskorun þetta er en þetta er Anfield og við reynum og sjáum svo hvað gerist.“

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×