Evrópuríki glíma nú við aðsteðjandi orkuvanda eftir að Rússar hættu að selja jarðgas þeim jarðgas til að hefna fyrir refsiaðgerðir þeirra vegna innrásarinnar í Úkraínu og láta reyna á samstöðu ríkjanna. Orkuverð hefur víða margfaldast og sjá mörg ríki fram á erfiðan vetur.
Bresk stjórnvöld hafa ekki gengið svo langt að hvetja landsmenn til þess að minnka orkunotkun sína, ólíkt sumum öðrum Evrópuríkjum. Jonathan Brearley, forstjóri Ofgem, orkustofnunar Bretlands, sagði hins vegar á viðburði í dag að Bretar ættu að reyna að draga úr gas- og rafmagnsnotkun sinni við hvert tækifæri.
„Við ættum öll að hugsa um hvernig við getum dregið úr orkunotkun okkar hvenær sem þess er kostur,“ sagði Brearley, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Slíkur sparnaður komi sér ekki aðeins vel fyrir pyngju fólks heldur hjálpi hann við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr ríkisútgjöldum. Ríkisstjórn ríkisflokksins niðurgreiðir nú orkukostnað landsmanna upp að vissu marki.
Á næstunni ætlar stofnunin að gefa út ráðleggingar um hvernig fólk getur sparað orku í samstarfi við orkugeirann. Brearley sagði að orkuforði Bretlands væri drjúgur og að hann byggist ekki við því að skortur skapist í vetur. Ekki væri þó hægt að útrýma allri áhættu.