Körfubolti

Verið sýnd nógu mikil van­virðing til að búið sé að kveikja í okkur

Gunnar Gunnarsson skrifar
Viðar Örn var sótillur að leik loknum.
Viðar Örn var sótillur að leik loknum. Vísir/Bára Dröfn

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar í Subway deild karla í körfubolta, sagði sitt lið aðeins hafa vantað ögn upp á að klára leik kvöldsins en hans menn töpuðu naumlega fyrir Njarðvík í kvöld. Hann var hins vegar allt annað en ánægður með dómara leiksins.

„Þetta var ekki nógu gott, við töpuðum. Það munar einu play-i hér og þar. Leikurinn verður erfiðari þegar við komum okkur í svona vandræði í byrjun en við gerðum vel í að koma til baka og síðan vantaði bara herslumuninn.“

Þið eruð yfir þegar tvær mínútur eru eftir, hvað vantar upp á?

„Það er komið. Körfuboltasamband Reykjavíkur, dómarar og aðrir sem koma að körfubolta hér á Íslandi hafa sýnt okkur nógu mikla vanvirðingu til að búið sé að kveikja í okkur. Það er komið gott af þessu bulli og við munum svara því inni á vellinum. Við vældum of mikið framan af og vorum kannski of litlir í okkur en þetta er skítaframkoma og henni verður bara svarað með frammistöðu.“

Hvað meinarðu með því?

„Þú hlýtur að hafa séð það. Það var bara verið að verja annað liðið á vellinum eins og prinsessur. Við fengum ekki nokkurn skapaðan hlut. Síðan er manni sagt að þegja um leið og maður talar við þessa menn, þeir eru litlir í sér. Það er ekki sama hver er. Ég get vælt undan því hér og fæ eflaust eitthvert píp fyrir það. En við munum svara þessu inn á vellinum og mínir menn munu berja sig saman í því. Við erum fimm á móti átta.“

Hvað sérðu sem bæta þarf fyrir næsta leik?

„Það koma dýfur inn á milli, sérstaklega varnarlega. Þegar allt smellur sóknarlega getum við búið til körfur. Við vinnum áfram í þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×