Innlent

Enn engin á­kvörðun tekin um á­kæru í máli hjúkrunar­fræðingsins

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu lauk rannsókn sinni á málinu í vor.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu lauk rannsókn sinni á málinu í vor. Vísir/Vilhelm

Embætti héraðssaksóknara hefur enn ekki tekið ákvörðun um hvort að ákæra verði gefin út í máli hjúkrunarfræðings sem starfaði á geðdeild Landspítalans og grunaður er um að hafa orðið sjúklingi að bana á síðasta ári. Málið er enn til meðferðar hjá embættinu.

Þetta kemur fram í svari embættisins við fyrirspurn fréttastofu.

Lögregla sendi frá sér tilkynningu í lok ágúst á síðasta ári þar sem fram kom að talið væri að andlát sjúklings hafi borið að með saknæmum hætti. Heimildir fréttastofu herma að sjúklingurinn, sem var kona á sextugsaldri, hafi þar kafnað í matmálstíma og léki grunur um að hjúkrunarfræðingurinn hafi verið að þvinga mat ofan í sjúklinginn.

Greint var frá því í apríl síðastliðinn að rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á málinu væri lokið og hefði verið sent ákærusviði lögreglunnar. Er málið nú á borði héraðssaksóknara.

Hjúkrunarfræðingurinn var á sínum tíma látinn laus úr haldi lögreglu eftir að Landsréttur felldi úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×