Það er sænska blaðið Expressen sem birtir myndirnar sem teknar voru á áttatíu metra dýpi í samstarfi við norskan sérfræðing á sviði neðansjávarljósmyndunar. Má þar sjá bæði leifar af stálleiðslunni sem og ónýtt steypustyrktarjárn.
Fréttir bárust af því í september að gas hafi byrjað að leka úr leiðslunum Nord Stream 1 og 2 austur af dönsku eyjunni Borgundarhólmi. Bárust myndir af því hvernig gasbólur streymdu upp úr sjónum á um hundrað metra kafla á yfirborði sjávar.
Ljóst má vera að skemmdarverk voru unnin á leiðslunum og hafa margir bent á rússnesk stjórnvöld þó að þau neiti því að hafa nokkuð með skemmdarverkin að gera. Dönsk stjórnvöld staðfestu í yfirlýsingu í morgun að skemmdirnar á leiðslunum hafi orðið af völdum sprenginga.
Nord Stream 1 var tekin í notkun árið 2011, en í byrjun september lokuðu rússnesk stjórnvöld á gasflutning um leiðsluna og vísuðu þar til tæknilegra vandræða. Framkvæmdum við Nord Stream 2 lauk á síðasta ári en hún hefur þó aldrei verið tekin í notkun, fyrst og fremst vegna innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu.
Stjórnvöld í Svíþjóð, Danmörku og Þýskalandi hafa öll hafið rannsókn á skemmdarverkunum á Nord Stream 1 og 2.