Fótbolti

Mkhitaryan hetja Inter í sjö marka leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Henrikh Mkhitaryan skoraði sigurmark Inter í uppbótartíma.
Henrikh Mkhitaryan skoraði sigurmark Inter í uppbótartíma. Mattia Ozbot - Inter/Inter via Getty Images

Inter vann dramatískan 3-4 útisigur er liðið heimsótti Fiorentina í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Henrikh Mkhitaryan reyndist hetja gestanna þegar hann skoraði sigurmarkið á fjórðu mínútu uppbótartíma.

Gestirnir í Inter byrjuðu leikinn af miklum krafti og Nicola Barella kom liðinu yfir strax á annarri mínútu áður en Lautaro Martinez tvöfaldaði forystuna tæpum stundarfjórðungi síðar.

Heimamenn minnkuðu þó muninn eftir um hálftíma leik þegar Arthur Cabral skoraði úr vítaspyrnu og staðan var því 1-2 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Varamaðurinn Jonathan Ikone jafnaði svo metin fyrir Fiorentina eftir um klukkutíma leik, en Lautaro Martinez kom gestunum yfir á nýjan leik á 73. mínútu með marki af vítapunktinum.

Luka Jovic virtist svo vera að tryggja heimamönnum stig þegar hann jafnaði metin fyrir Fiorentina á seinustu mínútu venjulegs leiktíma, en Henrikh Mkhitaryan reyndist hetja gestanna þegar hann tryggði liðinu sigur með seinustu spyrnu leiksins á fjórðu mínútu uppbótartíma.

Inter situr nú í sjöunda sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með 21 stig eftir 11 leiki,jafn mörg stig og Lazio og Udinese sem sitja í fimmta og sjötta sæti deildarinnar. Fiorentina situr hins vegar í 13. sæti deildarinnar með tíu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×