Þórður H. Þórarinsson, faðir annars drengsins, greinir frá málinu á Facebook. Hann segir í samtali við fréttastofu að drengirnir hafi verið á leið heim úr bíó þegar ráðist var á þá við gatnamót Fífuhvammsvegar og Hlíðardalsvegar. Þeir kannast ekkert við árásarmennina.
„Þeir eru á hlaupahjóli og eru að keyra fram hjá sjoppunni í Snælandi og það voru einhverjir strákar þar á vespu sem voru að elta þá, króuðu þá af, og létu höggin dynja; drógu upp einhverja kylfu og létu höggin dynja,“ segir Þórður.
Þakkar ökumanninum veitta aðstoð
Á meðan árásin stóð yfir tókst öðrum drengnum að hlaupa út á götu og stöðva bíl. Í honum var kona ásamt dóttur sinni og við það flúðu árásarmennirnir af vettvangi. Þórður þakkar ökumanninum fyrir að hafa komið syni sínum og vini hans til aðstoðar.
Meiðslin voru blessunarlega ekki alvarleg en sonur Þórðar fékk kúlu á hausinn og fær líklega glóðurauga.
Lögregla kom á vettvang og tók skýrslu af drengjunum. Málið er til skoðunar en Þórður telur líklegt að þeir feðgar leggi fram kæru vegna málsins.
Hann biður foreldra í hverfinu að ræða við börnin sín um málið.
„Það var hugmyndin með því að setja þetta inn að ef einhver kannast við þessa lýsingu þá geti foreldrar talað við börnin sín; að svona hegðun gangi ekki,“ segir hann að lokum.