Human Rights Watch (HRW) eru bandarísk mannréttindasamtök sem hafa ítrekað fjallað um mannréttindamál í Katar frá því að ríkinu var veitt gestgjafahlutverk heimsmeistaramótsins af Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, árið 2010.
Margt hefur verið skrifað um réttindi verkafólks í landinu en talið er að hátt í sjö þúsund hafi látist við uppbyggingu mannvirkja fyrir mótið og eru réttindi annarra verkamanna fótum troðin.
Samkynhneigð er ólögleg í Persaflóaríkinu sem hefur verið undir smásjá umheimsins vegna athyglinnar sem fylgir eins stórum viðburði og HM í fótbolta. Búist er við um einni milljón erlendra gesta í kringum mótið.
Fólk barið þar til því blæddi og meinað um læknisaðstoð
Í skýrslu HRW segjast samtökin hafa „sex skjalfest tilvik alvarlegra og endurtekinna barsmíða og fimm tilvik kynferðislegrar áreitni fólks í haldi lögreglu milli 2019 og 2022“. Nýjasta tilvikið sé frá því í september síðastliðnum.
Fjórar transkonur, ein tvíkynhneigð kona og einn samkynhneigður karlmaður sögðu öll frá því hvernig meðlimir svokallaðrar forvirkrar öryggisdeildar innanríkisráðuneytis Katar hafa handtekið þau og fært í neðanjarðarfangelsi í Doha, höfuðborg ríkisins.
„Þar áreittu lögreglumenn fanga munnlega og beittu líkamlegu ofbeldi, allt frá því að lemja og kýla í að sparka þar til þeim blæddi,“ segir í skýrslu HRW.
„Ein kona sagðist hafa misst meðvitund. Öryggisverðir beittu einnig andlegu ofbeldi, drógu fram þvingaðar játningar og meinuðu föngum um lögfræðiaðstoð, aðgang að fjölskyldu og læknishjálp,“ segir þar enn fremur.
Myndir teknar af brjóstum hennar og daglegar barsmíðar
Haft er eftir einni transkvennana í skýrslunni að henni hafi verið haldið í neðanjarðarklefa í tvígang. Í tvo mánuði í fyrra skiptið og í sex vikur í það síðara. Hún þjáist nú af þunglyndi og hræðist að vera úti á almannafæri eftir þá hörmulegu meðhöndlun sem hún þurfti að þola.
„Þeir börðu mig á hverjum degi og rökuðu af mér hárið. Þeir létu mig líka fara úr skyrtunni og tóku myndir af brjóstunum á mér,“ sagði hún.
Í öllum tilfellum voru fangarnir neyddir til að opna síma sína og þaðan voru teknar samskiptaupplýsingar um annað fólk úr LGBTQ-samfélaginu.
Allt gert án ákæru
Kynlíf utan hjónabands og kynlífs samkynhneigðra er ólöglegt í íhaldsama múslimaríkinu. Refsing fyrir slíkt getur varðað allt að sjö ára fangelsisvist.
Enginn hinna handteknu kveðst þó hafa verið ákærður fyrir meinta glæpi sína.
Skandinavískir fjölmiðlar komust að því fyrr á þessu ári að hótel í Katar tækju misvel á móti samkynhneigðu fólki sem hyggðist fara á mótið, þar sem einhver sögðu samkynhneigða einfaldlega ekki velkomna og önnur hvöttu fólk til að fela samkynhneigð sína.
Skipuleggjendur HM í Katar hafa ítrekað sagt alla velkomna til landsins, sama hver þeirra kynhneigð væri. FIFA hefur sagt að regnbogafánar, til stuðnings réttindum LGBTQ-fólks, verði leyfðir á og við leikvanga á mótinu.
Human Rights Watch hefur hvatt FIFA til að þrýsta á katörsk yfirvöld að hefja umbætur á réttindastöðu LGBTQ-fólks í landinu og að sambandið kalli eftir frekari vernd frá ofbeldi af hálfu lögregluyfirvalda.