Tónlist

Burstar alltaf tennurnar rétt áður en hún stígur á svið

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Kolbrún Óskarsdóttir, KUSK, var að gefa út plötu í dag. Hún kemur fram á Iceland Airwaves í ár.
Kolbrún Óskarsdóttir, KUSK, var að gefa út plötu í dag. Hún kemur fram á Iceland Airwaves í ár. Aðsend

KUSK er listamannsnafn tónlistarkonunnar Kolbrúnar Óskarsdóttur en hún skaust upp á stjörnuhimininn fyrr á árinu þegar hún bar sigur úr býtum í Músíktilraunum. KUSK kemur fram á Airwaves í ár en hún var jafnframt að senda frá sér plötuna Skvaldur í dag. Blaðamaður tók púlsinn á KUSK.

Alls konar fólk og ný lög

„Airwaves leggst ótrúlega vel í mig, ég er hrikalega spennt að fá að prófa spila þar í fyrsta sinn,“ segir Kolbrún full tilhlökkunar. „Ég hef þekkt hátíðina lengi og það er einhvern veginn alltaf jafn góð stemning í kringum hana.

Ég meina fólk leggur í það að taka flugvél alla leið til Íslands bara til að fara á hana.

Ég hugsa að ég sé spenntust fyrir því að fá að hitta allt þetta fólk, bæði alla sem koma og horfa og líka þá sem spila, það eru svo ótrúlega margir flottir listamenn í ár. Svo fæ ég líka að flytja ný lög sem loksins verða komin út sem er líka mjög spennandi.“

Hádegis pulsan fastur liður

Kolbrún stundar nám við Listaháskólann og má því segja að hún lifi sí skapandi lífi. Aðspurð um daglega rútínu segir hún:

„Ég vakna alltaf, fæ mér kaffi í múmínbolla og spæli mér egg. Síðan keyri ég í skólann með pepp tónlist í botni því ég er líklegast enn þá hálfsofandi þegar ég legg af stað. Ég byrjaði í LHÍ á Sviðshöfundabraut í haust og eyði því byrjun dagsins þar og fæ mér eina góða pulsu í hádeginu.“

Kolbrún og Hrannar Máni, eða KUSK og Óviti eins og þau kalla sig, hafa unnið mikið saman í tónlistinni og hittast næstum daglega.

„Eftir skóla hitti ég oftast hinn eina sanna Óvita og við förum gjarna að gera tónlist, undirbúa tónleika eða förum á KEX og fáum okkur pizzu. Mig langar ekki að vita hvað ég hef keypt mér margar pizzur á KEX í ár.“

Litlu hlutirnir, drifkraftur og jákvæð orka

Þegar Kolbrún semur tónlist og texta segist hún sækja mikinn innblástur í umhverfið.

„Mér finnst gaman að leika mér að því að koma hugsunum mínum í orð með því að lýsa hlutum sem ég sé. Ég stend föst á því mottói að njóta litlu hlutanna í lífinu og nota myndlíkingar til þess að koma þeim inn í tónlistina. 

Hvað varðar lífið þá kemur innblásturinn hundrað prósent frá fólkinu í kringum mig. Ég hef uppgötvað það í gegnum lífið að það er svo gott að vera umkringdur fólki sem hefur góð áhrif á þig.

Hvort sem það er drifkraftur eða bara jákvæð orka þá fyllir það mig alltaf innblæstri.“

Yndislegt ferli

Kolbrún var sem áður segir að senda frá sér plötuna Skvaldur.

„Platan sjálf hefur verið í bígerð í um það bil hálft ár. Ég var samt búin að semja eitthvað áður fyrir það en þá var planið aldrei að gefa út. Lagið LÚPÍNUR, sem verður síðasta lagið á plötunni, var til dæmis samið heima á stofugólfi sumarið 2021.

Þegar Músíktilraunir komu inn á borðið og ég fór að semja meira varð platan smám saman til. Núna eru þetta níu lög sem ég er svo sannarlega stolt af og hlakka til að leyfa fólki að heyra.

Þetta er líka búið að vera svo yndislegt ferli, er búin að fá að vinna með svo góðu fólki. LÚPÍNUR var til dæmis unnið áfram með Snorra Beck Magnússyni og svo er Óviti gestalistamaður á laginu MORGUN. Svo fékk ég svo skemmtilega að vinna í mixi með Kára Hrafn Guðmundssyni og Starri Snær Valdimarsson masteraði.“

Listasúpa

Listin einkennir líf Kolbrúnar og hefur hún ástríðu fyrir mörgu sem tilheyrir því sviði.

„Ég er búin að flakka rosalega mikið milli hluta sem ég vil gera síðustu ár. Ég ætlaði alltaf að verða myndlistarmaður og leikkona. Þótt ég hafi vissulega skipt um stefnu frekar oft þá hefur mig alltaf langað í einhvers konar list.“

Kolbrún datt fyrir tilviljun inn í tónlistina árið 2020 og fór þá bæði að pródúsera og semja. 

„Síðan þá hef ég hiklaust stefnt á að gera eins mikla tónlist og spila eins mikið og tækifæri gefst. Það gefur mér svo mikið og mér finnst svo gaman að geta líka gefið frá mér.

Svo hefur myndlistin og sviðslistirnar líka fylgt mér í gegnum þetta enda er ég komin í listnám núna í Listaháskólanum. 

Ég er enn þá svolítið að finna út úr því hvernig mig langar að blanda öllu þessu saman en akkúrat núna er ég bara að njóta þess að vera í listasúpu.“

Pizzan góður undirbúningur

Fyrir tónleika reynir Kolbrún að sofa út ef tækifæri gefst.

„Þannig leyfi ég spennunni aðeins að malla. Svo tek ég út allt stressið í soundcheckinu, en þar prófa ég líka öll pabbadjókin sem ég geymi í vasanum til að koma mér í stuð. Eftir soundcheck er fátt betra en að fá sér góða máltíð fyrir kvöldið og þá verður, ótrúlegt en satt, KEX pizza oftast fyrir valinu.

Þegar nær dregur því að stíga á svið finnst mér mjög gott að bursta tennurnar, það er eitthvað sem ég hef einhvern veginn alltaf gert. 

Það síðasta sem ég geri svo fyrir tónleika er að taka eina góða stress klósettferð. Svo er bara að njóta,“ 

segir Kolbrún að lokum.


Tengdar fréttir

„Hefði hlegið að mér og sagt að mig væri að dreyma of stórt“

Hin 19 ára gamla Kolbrún Óskarsdóttir, jafnan þekkt sem KUSK, hefur átt öflugt tónlistarár. Hún sigraði Músíktilraunir í mars síðastliðnum og hefur komið fram á tónleikum víða um landið síðan þá. KUSK var að senda frá sér lagið UNDAN BERUM HIMNI, sem er jafnframt fyrsti síngúll af væntanlegri plötu.

Röyksopp á Airwaves 2022

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves fer fram með pomp og prakt 3. - 5. nóvember næstkomandi. Fjölbreytt tónlistaratriði koma fram í ár en hátíðin tilkynnti rétt í þessu 23 atriði til viðbótar við dagskrána.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.