Fótbolti

„Þurfum að fá fleiri konur inn til þess að gæta hagsmuna ungra kvenna og stúlkna“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rakel Logadóttir og Inga Lára Jónsdóttir eru í hagsmunasamtökum knattspyrnukvenna.
Rakel Logadóttir og Inga Lára Jónsdóttir eru í hagsmunasamtökum knattspyrnukvenna. Vísir/Stöð 2 Sport

Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna stóðu í dag fyrir málstofu undir yfirskriftinni "Framtíðin er kvenna en við erum hins vegar föst í núinu!". Málstofunni er ætlað að stuðla að fjölgun kvenna í stjórnum knattspyrnudeilda hér á landi.

„Þetta þýðir að við erum bara í núinu og við erum svolítið föst þar,“ sagði Rakel Logadóttir í samtali við Stöð 2 í dag.

„Við erum að skoða kynjaskiptingu í stjórnum knattspyrnufélaga á Íslandi og við erum svolítið föst í því að meirihlutinn eru karlmenn í stjórnunum. Við erum kannski svolítið föst þar, en framtíðin er kvenna. Það þýðir bara að við þurfum að fá fleiri konur inn til þess að gæta hagsmuna ungra kvenna og stúlkna.“

Konur séu tilbúnar að bjóða sig fram, en félögin þurfi að leita oftar til þeirra

Þeirri tuggu á til að vera kastað fram að konur þurfi einfaldlega að vera duglegri að bjóða sig fram í stjórnir hjá félögunum. Það getur hins vegar reynst erfitt þegar tækifærin eru af skornum skammti.

„Ég held að konur séu alveg tilbúnar að bjóða sig fram í stjórnir knattspyrnufélaga. Ég held líka að það sé kannski ekki leitað mikið til þeirra,“ segir Inga Lára Jónsdóttir.

„Það er oft talað um að þær hafi ekki tíma, en ég held að það séu konur þarna úti sem hafa áhuga og ég held að félögin þurfi líka að vera duglegri að leita til þeirra. Þetta er svolítið vaninn að svona gerum við þetta og svona höfum við gert þetta. Þannig ég held að það sé bara spurning um að horfa aðeins í kringum sig og fara út fyrir boxið.“

Rakel er sammála Ingu og bætir við að viðhorfsbreyting þurfi að eiga sér stað.

Getum gert betur þó staðan sé betri nú en áður

En er þetta til marks um að staðan fari versnandi eða eru konur duglegri að láta í sér heyra þegar aðstæður eru ekki nógu góðar?

„Ég held að sé vegna þess að konur séu duglegri að láta í sér heyra,“ sagði Rakel.

„Þetta tekur alltaf skref fram á við. Við vorum sjálfar í knattspyrnu fyrir kannski 15-20 árum og þá var þetta mun verra. Þannig að við erum komin mun lengra en við vorum þá og við getum alltaf gert betur,“ bætti Inga við að lokum.

Klippa: 'Framtíðin er kvenna en við erum hins vegar föst í núinu!'

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×