Fyrstu leikir dagsins voru leiknir af tveimur sex ára börnum, þeim Aríu Björk og Thor Guðna en þau voru bæði nemendur í leikskólanum Laufásborg. Börnum í leikskólanum er gjarnan kennd skák og er skákrými leikskólans sagt nefnt eftir stórmeistaranum Friðrik Ólafssyni.
Magnus Carlsen tefldi fjórar skákir gegn Ian Nepomniachtchi. Carlsen vann fyrstu skákina en tapaði hinum þremur.
Nodirbek Abdusattorov tefldi aðeins þrjár skákir við Hikaru Nakamura en Nakamura vann fyrstu þrjár skákirnar og því var ekki þörf á að tefla þá fjórðu.
Nepomniachtchi og Nakamura mætast því í úrslitum og kemur þá í ljós hver næsti heimsmeistarinn í Fischer-slembiskák verður.
Leiki dagsins má sjá með því að smella hér.
Allir átta keppendur mótsins teljast sem stórmeistarar en til þess að öðlast þá nafnbót þarf skákmaður að ná 2500 skákstigum á einhverjum tímapunkti á sínum ferli auk annarra áfanga. Aðeins fimmtán manns hafa orðið stórmeistarar hér á landi og er Hjörvar Steinn Grétarsson einn þeirra. Hjörvar er þátttakandi á heimsmeistaramótinu og mun á morgun tefla við Matthias Blübaum um sjöunda sætið.