Loftvarnaflautur ómuðu víða í Úkraínu í morgun og heyrðust sprengingar í Kænugarði, en Rússar skutu um það bil fjörutíu eldflaugum á hin ýmsu skotmörk. Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari og íbúi í Kænugarði segir að sprengingarnar séu svar Rússa við árás Úkraínumanna á Svartahafsflotann.
„Það var gerð árás á Svartahafsflotann með þessum hafdrónum og reyndar úr lofti líka fyrir stuttu síðan sem gekk mjög vel en ekki er vitað um skemmdir, en það er vitað að tvö stærstu tvö skipin í flotanum eru skemmd. Það er eins og síðast, þegar gerð var árás á Kerch brúnna, að Rússar svöruðu fyrir það í morgun með þvílíku magni af eldflaugum, eldflaugaárásir um allt land.“
Hann segir Úkraínuher enn í mikilli sókn. Rússari svari fyrir árásir Úkraínumanna með því að ráðast á borgaraleg skotmörk, þar sem þeir hafi ekki styrk til að svara á vígvellinum.
„En eina sem er að draga úr sókn úkraínumanna kemur Rússum voðalega lítið við. Veðurfar er þannig að nú er svokallað leðjutímabil hér í Úkraínu og það er erfitt að heyja stríð í mikilli leðju. Sérstaklega fyrir þessi þungu tæki, þau komast ekki yfir stór opin svæði, verða að ferðast eftir vegum og þess vegna sökkva þau mikið í drullu og það gildir á báða bóga. Þetta er erfitt fyrir báða aðila.“