Þrír félagar Gráa hersins, baráttuhópi eldri borgara um lífeyrismál, höfðuðu mál gegn Tryggingastofnun og íslenska ríkinu vegna skerðinga á ellilífeyri og heimilisuppbót á móti greiðslum frá lífeyrissjóðnum.
Málin voru ólík en öll byggð á því sjónarmiði að með skerðingu opinberra lífeyrisgreiðslna í hlutfalli við réttindi, sem ellilífeyrisþegar hafa áunnið sér í lífeyrissjóðum með vinnuframlagi og iðgjöldum, væri gengið gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti lífeyristaka. Landssamband eldri borgara taldi skerðinguna nema allt að 73 prósentum.
Íslenska ríkið var sýknað af kröfum Gráa hersins í desember á síðasta ári. Grái herinn áfrýjaði málunum sem vísað var beint til Hæstaréttar, án viðkomu í Landsrétti. Taldi Hæstiréttur að málin hefðu mikla þýðingu fyrir hagsmuni fjölda einstaklinga sem og ríkissjóðs.
Dómur Hæstaréttar í málunum var kveðinn upp klukkan 14 í dag. Í þeim var öllum málsástæðum Gráa hersins hafnað og ákveðið að dómar héraðsdóms skyldi standa órasakaðir.