Innlent

Veittu manni og hundi á rafmagnshlaupahjóli eftirför

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það er ekki á hverjum degi sem lögregla eltir mann og hund.
Það er ekki á hverjum degi sem lögregla eltir mann og hund. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór stutta en óvenjulega eftirför í gærkvöldi, eftir að tilkynnt var um kannabislykt í Hlíðahverfi. Þegar lögreglu bar að flúði meintur gerandi af vettvangi, á rafmagnshlaupahjóli með hund á palli hjólsins.

Eftirförin endaði á Klambratúni þar sem viðkomandi var króaður af og handtekinn fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu. Bæði meintur gerandi og hinn loðni félagi hans voru fluttir á lögreglustöð, þar sem síðarnefndi beið í búri á meðan fyrrnefndi undirritaði leitarheimild.

Lögregla lagði síðan í húsleit ásamt hundinum og eiganda hans en við leitina fannst lítið magn af ætluðum fíkniefnum. Voru efnin haldlögð og skýrsla rituð um málið.

Í gærkvöldi og nótt bárust einnig þrjár tilkynningar um líkamsárásir en meiðsl virðast hafa verið lítil. Í einu tilvikinu var meintur gerandi farinn af vettvangi en árásarþoli var verulega ölvaður og dónalegur í samskiptum við lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×