Tónlist

„Eftir þetta kvöld breyttist allt fyrir mig“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Eydís Helena Evensen mynduð af kærasta sínum Einari Egils rétt áður en hún steig á svið í Fríkirkjunni síðastliðinn föstudag.
Eydís Helena Evensen mynduð af kærasta sínum Einari Egils rétt áður en hún steig á svið í Fríkirkjunni síðastliðinn föstudag. Einar Egilsson

Síðastliðin ár hafa verið mikill tilfinningarússíbani hjá tónlistarkonunni Eydísi Evensen en hún var hálfpartinn uppgötvuð á Iceland Airwaves árið 2018 og hefur síðan þá spilað víðs vegar um Evrópu. Eydís kom aftur fram á Airwaves í ár en hún segir alltaf best að spila heima á Íslandi.

„Ég spilaði fyrst á Airwaves árið 2018 í Iðnó á Bella Union kvöldinu. Það var einstaklega stressandi en spennandi upplifun, en ég kláraði útsetningarnar fyrir strengjakvartettinn nokkrum dögum fyrir tónleikana,“ segir Eydís í samtali við blaðamann.

Hún bætir við að mætingin hafi verið ágæt en það hafi þýtt mikið fyrir hana að sjá fjölskyldu og vini í salnum.

Létt spennufall

„Eftir tónleikana þá fékk ég létt spennufall, en fyrsta manneskjan sem ég hitti eftir giggið var A&R frá Sony Masterworks sem þakkaði fyrir sig, gaf mér nafnspjaldið sitt og bað mig um að vera í sambandi. 

Ég brosti út að eyrum og fór til fjölskyldu minnar, norðurljósin dönsuðu úti fyrir ofan okkur og eftir þetta kvöld breyttist allt fyrir mig og mitt tónlistarferðalag.“

Airwaves á því alltaf stað í hjarta hennar.

„Það var alveg einstök upplifun að fá að spila aftur á hátíðinni í Fríkirkjunni, það er alltaf best að fá að spila heima á Íslandi.“

Hreinskilni og svigrúm fyrir flæðið

Eydís segir síðustu ár hafa verið hreint út sagt mögnuð og lýsir þeim sem algjörum tilfinningarússíbana.

„Það var vissulega áskorun að byrja fyrst að gefa út tónlist í Covid, en mikið er ég þakklát fyrir það hvernig allt hefur þróast í gegnum síðustu mánuði. Það hefur verið svo gaman að fá að spila víða um Evrópu og Seattle.“

Hver dagur er ólíkur hjá Eydísi en aðspurð hvað skipti hana mestu máli í listsköpuninni segir hún:

„Hreinskilni og að geta gefið sér svigrúm til þess að flæða í gegnum sköpun hvers dags, þar sem allir dagar eru öðruvísi tilfinningalega séð. 

Ég sæki innblásturinn svo frá okkar fallegu náttúru og veðurfari á Íslandi, ásamt persónulegum upplifunum og tilfinningum.“


Tengdar fréttir

„Tónlist hefur verið minn persónulegi sálfræðingur frá því að ég byrjaði fyrst að semja“

Eydís Helena Evensen er skapandi listakona með meiru sem ber ýmsa hatta á borð við tónskáld og píanóleikara. Hún sendi frá sér EP plötuna Frost síðastliðna helgi en þar er að finna fjögur tónverk eftir Eydísi. Samhliða plötunni sendu Eydís og maki hennar Einar Egils frá sér myndverk við lagið Dawn is near. Blaðamaður hafði samband við Eydísi og fékk að skyggnast inn í hennar listræna hugarheim.

Eydís Evensen og Einar Egils nýtt par

Leikstjórinn og kvikmyndagerðamaðurinn Einar Egils og tónskáldið Eydís Helena Evensen eru komin í samband. Hamingjuóskum hefur rignt yfir þau síðan þau opinberuðu sambandið. 

Fallegur flutningur Eydísar og GDRN

Eydís Helena Evensen píanóleikari og tónskáld kemur fram í nýjasta myndbandi KEX Live at Home. Eydís flutti þar lögin af plötu sinni Bylur.

„Ég er svolítið að henda mér í djúpu laugina“

Í gær kynnti tónlistarrisinn Sony um nýtt útgáfumerki á sínum vegum, XXIM Records. Fyrsti listamaðurinn sem útgáfufyrirtækið kynnir er hin íslenska Eydís Helena Evensen, píanóleikari og tónskáld frá Blönduósi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.