Samningurinn sem Craig undirritaði gildir út undankeppni EM 2025, og fram yfir lokakeppnina ef Ísland kemst þangað, og því ljóst að hann mun stýra íslenska landsliðinu í að minnsta kosti áratug.
Craig, sem er 57 ára, tók nefnilega við landsliðinu í ársbyrjun 2014 og stýrði því inn í lokakeppni EM 2015 og EM 2017. Hann á möguleika á að gera Ísland að fámennustu þjóð sögunnar til að spila á HM á næsta ári, en til þess þarf liðið á góðum úrslitum að halda á föstudag gegn Georgíu í Laugardalshöll og gegn Úkraínu í Lettlandi á mánudag.
Áður en hann tók við Íslandi hafði hann verið aðstoðarþjálfari danska landsliðsins og stýrt danska liðinu Svendborg Rabbits við afar góðan orðstír.
Craig tók við íslenska liðinu í lok janúar 2014 og hefur því verið þjálfari liðsins í 3.204 daga. Enginn þjálfari hefur stýrt liðinu samfleytt í svo langan tíma.
Einar Bollason stýrði þó liðinu lengur, ýmist einn eða með öðrum þjálfara, en með nokkrum hléum, samtals í 3.780 daga samkvæmt yfirliti á vef KKÍ. Craig mun taka fram úr Einari í þessum efnum starfi hann út samningstímann.
Baldur Þór Ragnarsson og Hjalti Þór Vilhjálmsson skrifuðu einnig undir samning þess efnis að verða áfram aðstoðarþjálfarar. Baldur, sem þjálfar varalið Ratiopharm Ulm í Þýskalandi, hefur verið aðstoðarmaður Craigs frá því í árslok 2015. Hjalti, þjálfari Keflavíkur, tók við sem aðstoðarþjálfari af Finni Frey Stefánssyni undir lok árs 2017.