Innlent

Hafa áhyggjur af frum­varpi um aukna lausa­sölu lyfja og benda meðal annars á tíðni para­seta­móleitrana

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Svíar hafa bannað lausasölu parasetamóls.
Svíar hafa bannað lausasölu parasetamóls.

Parasetamóleitranir eru algengasta ástæða bráðrar lifrarbilunar á Vesturlöndum en 542 slíkar eitranir áttu sér stað á Íslandi á árunum 2010 til 2017. 

Algengasta orsök eitrana eru sjálfsvígstilraunir ungra kvenna með lyfinu en fylgni er milli aðgengis að lyfinu og aukinnar tíðni sjálfsvígstilrauna.

Þetta kemur fram í umsögn Lyfjastofnunar um frumvarp sem kveður á um breytingar á sölu lausasölulyfja.

Eins og sakir standa hefur Lyfjastofnun heimild til að veita almennum verslunum á svæðum þar sem ekki eru starfræktar lyfjaverslanir undanþágu til að selja lyf. 

Í umsögn Lyfjastofnunar segir að ef frumvarpið yrði samþykkt neyddist stofnunin til að endurskoða áhættumat sitt á þeim lyfjum sem stofnunin telur að sé óhætt að selja í almennum verslunum, meðal annars með tilliti til dæmisins hér fyrir ofan.

„Þann 1. nóvember 2015 bönnuðu Svíar lausasölu parasetamóls taflna í almennum verslunum vegna gríðarlegrar aukningar á parasetamóleitrunum og að lyfið tengdist sjálfsvígstilraunum ungra stúlkna. Talið var að aukið aðgengi lyfjanna í almennum verslunum hefði orsakað aukninguna,“ segir í umsögninni.

Þar segir einnig að með samþykkt frumvarpsins sé fyrirsjáanlegt að þjónustustigið úti á landi muni skerðast.

„Þetta getur veikt þá lyfjafræðilegu þjónustu sem til staðar er úti á landi þar sem veltan mun minnka hjá þeim lyfjabúðum og lyfjaútibúum sem fyrir eru,“ segir í umsögninni en á landsbyggðinni séu reknar 25 lyfjaverslanir og 27 lyfjaútibú.

Ljóst sé að eftirliti Lyfjastofnunar með almennum verslunum séu takmörk sett. Lyfjastofnun telji að aðgengi að sölustöðum lyfja í þéttbýli sé fullnægjandi og að frekari útvíkkun á ákvæði lyfjalaga um sölu lyfja í almennum verslunum kunni að leiða til skerðingar á faglegri þjónustu á landsbyggðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×