Hvetur fólk til að nota arf barnanna og nýta peningana sína snemma Rakel Sveinsdóttir skrifar 13. nóvember 2022 08:01 Tryggvi Pálsson er eitt þekktasta nafnið úr bankageiranum þar sem hann starfaði í ýmsum lykilstöðum í áratugi. Tryggvi hætti í formlegri dagvinnu 62 ára og segir þriðja æviskeiðið til að njóta og uppskera. Það sé hins vegar undir hverjum og einum komið hvernig til tekst. Tryggvi hvetur fólk til að nýta peningana sína og eignir til að njóta á meðan það hefur heilsu til, frekar en að arfleiða fjármuni til fullorðinna afkomendur. Vísir/Vilhelm „Notaðu arf barna þinna er meira að segja yfirskrift ferðaskrifstofu í Danmörku sem sérhæfir sig í ferðum fyrir fólk á þriðja æviskeiði. Sem ég er sammála um að fólk geri og hvet fólk til að nýta peninga sína snemma og á meðan það hefur heilsu til,“ segir Tryggvi Pálsson og bætir við: „Því þegar að við föllum frá má gera ráð fyrir að börnin okkar séu á sjötugsaldri og sjálf löngu búin að koma sér vel fyrir. Þau hafa fengið stuðning í uppeldinu, náminu og ef til vill við kaup á fyrstu íbúðinni. Þannig að til hvers að keppast við að eiga eitthvað til að arfleiða fullorðna afkomendur að í stað þess að njóta þess sem þú ert búinn að vinna þér fyrir?“ Tryggvi Pálsson er eitt þekktasta nafnið úr heimi banka- og fjármála síðustu áratugi. En ekkert síður fyrir kennslu eða þátttöku í félagsstörfum. Tryggvi fæddist 28. febrúar árið 1949 og er af vinum sagður „meistari í að njóta þriðja æviskeiðsins.“ Lýsing sem á vel við því sjálfur segir Tryggvi: „Þegar við erum komin á þetta tímabil í lífinu erum við okkar eiginn meistari,“ segir Tryggvi. Tryggvi útskýrir þetta nánar með því að vísa til þess hvernig dagskráin okkar framan af ævi er í raun nokkuð fyrirséð umgjörð sem heldur okkur uppteknum: Við erum börn í leik, förum í skóla, fullorðnumst, byggjum upp heimili og fjölskyldu, erum útivinnandi og störfum við ýmislegt. Loks kemur að þriðja æviskeiðinu. Sem með hækkandi lífaldri felur í sér mörg ár og jafnvel áratugi. „Þriðja æviskeiðið er hins vegar tímabil sem hver og einn verður að eiga við sjálfan sig,“ segir Tryggvi og brosir. Sjálfur hætti Tryggvi nokkuð snemma formlegri dagvinnu, eða 62 ára. En ljóst er að Tryggvi er langt frá því að hafa ekki nóg fyrir stafni. Ýmist sem ráðgjafi, stjórnarmaður, við kennslu, félagsstörf, að sinna áhugamálum, fjölskyldu, vinum og fleira. Þegar viðtalið er í undirbúningi hefjast samskiptin til dæmis í tölvupósti þar sem Tryggvi er ýmist staddur á flugvelli í Frankfurt eða annars staðar, á heimleið eftir góða ferð til Írans. Þessa helgina setjumst við niður með Tryggva og heyrum um það í hverju galdurinn felst: Hvernig verðum við okkar eigin meistarar þegar kemur að þriðja æviskeiðinu? Til vinstri er mynd af Tryggva við leik að Bessastöðum en Tryggvi er afabarn Ásgeirs Ásgeirssonar, fyrrum forseta Íslands. Tryggvi rifjar upp sumrin í sveitinni, sendlastarfið með peninga í tösku í Reykjavík, þegar greitt var í píku á Núpi í Dýrafirði og sumrin þegar farið var á sjó á síðutogurum.Vísir/Einkasafn, Vilhelm Gutti í sveit og á Bessastöðum Foreldrar Tryggva voru Páll Ásgeir Tryggvason sendiherra og Björg Ásgeirsdóttir sendiherrafrú. Hins vegar er full ástæða til að nefna sérstaklega móðurafa Tryggva líka, Ásgeir Ásgeirsson fyrrum forseta Íslands. Ásgeir var annar forseti Íslands og sá fyrsti sem kjörinn var í almennri kosningu. Ásgeir var forseti Íslands tímabilið 1952-1968 og því ekkert að undra að sumar æskuminningar Tryggva séu frá Bessastöðum. Um Ásgeir hafa verið ritaðar bækur. Einkum ævisaga Ásgeirs sem Gylfi Gröndal skrifaði og var gefin út árið 1992. Og bókin Ásgeir Ásgeirsson: Maðurinn og meistarinn sem Tryggvi sjálfur tók saman árið 2019. Það er reyndar svolítið skemmtilegt að um Ásgeir segir á bakhlið bókar: „Ásgeir hafði jákvæða afstöðu til lífsins og mannlegra samskipta og störf hans skiluðu árangri. Hann vann til góðs, naut hvarvetna mikillar virðingar og vinsælda og var hamingjusamur fjölskyldumaður.“ Sem er einmitt sambærileg lýsing og blaðamaður væri til í að kvitta upp á: Sem lýsingu á Tryggva sjálfum! Það eru þó ekki æskustundir á Bessastöðum sem koma fyrst upp í hugann þegar Tryggvi er spurður um æskuna. „Maður sér það alltaf betur og betur eftir því sem maður eldist, hvað fólk sem maður tengdist í æsku gefur manni mikla kjölfestu í lífinu. Ekki aðeins var ég heppinn með val á foreldrum og ömmum og öfum, heldur var ég líka hjá einstöku fólki í sjö sumur í sveit í Hraunkoti í Lóni,“ segir Tryggvi. „Það þótti svo sjálfsagt að börn færu í sveit á þessum tíma. Sem þykja mikil forréttindi í dag enda ekkert sjálfgefið að piltar kunni að tálga spýtur í dag eða reka nagla. Hvað þá að þeim séu gefnar sjálfskeiðungur eða vasahnífur í fermingagjöf.“ Það merkilega er þó að þótt engin ættartengsl væru við fólkið á Hraunkoti, voru fleiri en Tryggvi hjá þeim lengi í sveit. „Mamma var í sveit hjá þessu sama fólki og síðan börnin okkar Rannveigar,“ segir Tryggvi, en eiginkona hans er Rannveig Gunnarsdóttir lyfjafræðingur og fyrrverandi forstjóri Lyfjastofnunar. Þá er ljóst að Tryggvi byrjaði mjög snemma að vinna eins og algengt var í þá daga. „Ég var oft að sendast fyrir afa Tryggva,“ segir Tryggvi og á þar við föðurafa sinn Tryggva Ófeigsson sem lengi var mikill athafnamaður með útgerð og í viðskiptum við Útvegsbankann. Þá var maður sendur í Útvegsbankann að sækja háar fjárhæðir þegar greiða átti starfsfólki á Kirkjusandi laun í vikulok. Hugsaðu þér; maður var bara gutti að sendast á milli með margar milljónir í tösku. Þetta var nú ekkert flóknara.“ Í fjögur sumur starfaði Tryggvi síðan á síðutogurum: Í þrjú sumur á Júpíter en síðan eitt á Marz. Þá vann hann í fjögur sumur í Slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli og þrjú sumur í hagfræðideild Seðlabankans. Sem unglingur var Tryggvi líka í þrjú ár í dönskum skóla. Því þann tíma var faðir hans sendiráðunautur í Kaupmannahöfn. Þegar faðir hans færðist til starfa í sendiráðið í Stokkhólmi í Svíþjóð, fór Tryggvi hins vegar í heimavistarskólann á Núpi í Dýrafirði. „Það þótti ekki ganga að ég færi beint úr dönskum skóla í landsprófið heima því það myndi vanta upp á íslenskuna. Ég fór því í 2.bekk á Núpi til undirbúnings á landsprófi sem ég tók í Hagaskólanum ári síðar. Á Núpi undi ég hag mínum vel þótt skólakerfið væri allt annað og mjög ólíkt því sem var í Danmörku. Ég minnist sérstaklega leikferðar um Vestfirði með nemendaleikrit en eins sendinga sem komu til okkar. Amma og afi sendu mér stundum Assisbrúsa til að blanda smá appelsín á sunnudögum svo ekki sé talað um klístur í hárið til að geta greitt í píku. Það þótti nú mikið sport,“ segir Tryggvi og er skemmt af minningunni. Kennsla og bankastarfsemi einkennir starfsframa Tryggva sem gegnt hefur lykilstöðum í bankageiranum, í Seðlabanka Íslands og í stjórnum ýmissa fyrirtækja um árabil. Þótt Tryggvi hafi hætt í formlegri dagvinnu árið 2011 segist hann aldrei ætla að hætta að vinna. Enda starfar hann enn sem sjálfstæður ráðgjafi, sinnir kennslu og ýmislegt fleira.Vísir/Vilhelm Þekkingarbrunnurinn: Starfsframinn og reynslan Það er erfitt að verða ekki mjög upp hrifinn af ferilskrá Tryggva. Þar sem lykilstörf í bankageiranum eru einkennandi og ná hreinlega áratugi aftur í tímann. Kennsla hefur reyndar líka verið áberandi alla tíð og viðurkennir Tryggvi að hann hafi alltaf heillast af kennslu og þótt hún skemmtileg. Þó aldrei þannig að kennslan væri það sem hann vildi eingöngu leggja fyrir sig. Í mörg ár og allt frá sínum eigin námsárum hefur Tryggvi samt kennt. Lengst af þjóðhagfræði og bankafræði í meistaranámi. Í dag er Tryggvi meðal annars að kenna góða stjórnarhætti á vegum Akademías. Tryggvi útskrifaðist sem stúdent úr MR en fór síðan í viðskiptadeild Háskóla Íslands, þjóðhagskjarna. Tryggvi útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn og var lokaritgerðin hans valin til birtingar í Fjármálatíðindum. Næst var það framhaldsnám í London þaðan sem Tryggvi útskrifaðist með meistaragráðu í þjóðhagfræði frá London School of Economics and Political Science árið 1975. Um haustið hóf hann framhaldsnám í Queen Mary College en fékk þá boð um að byggja upp nýja hagfræði- og áætlanadeild hjá Landsbankanum. Tryggvi þáði boðið og héldu ungu hjónin aftur heim til Íslands. Hjá Landsbankanum starfaði Tryggvi frá 1976-1988, því næst sem bankastjóri í Verslunarbankanum þar sem hann tók virkan þátt í að leiða sameiningu þess banka og fleiri sem síðar urðu að Íslandsbanka. Hjá Íslandsbanka starfaði hann frá árinu 1990 til aldamóta þegar hann færði sig yfir í Seðlabanka Íslands þar sem hann starfaði til haustsins 2011. Samhliða þessu hefur Tryggvi setið í ýmsum stjórnum. Svo sem stjórnarformaður Landsbankans, ISB Holding, Reiknistofu bankanna, Kauphöll Íslands, Verðbréfaskráningu Íslands, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Glitni, Kreditkorti, Fjárfestingarfélagi Íslands og Féfangi. Eru þá ótaldar opinberar nefndir eða félagsstörf. Þannig að hvar skal byrja að ræða starfsframann við mann sem í umsögnum fær lýsingarorð eins og lykilmaður, brautryðjandi, frumkvöðull, virkur þáttakandi, leiðandi, aðalhvatamaður eða frábær kennari? Við skulum byrja á því að forvitnast um gamla tíma. Pólitíkin hafði mikil ítök í bankageiranum á Íslandi og mun lengur hér en hjá nágrannaþjóðum okkar.Flokkarnir skipuðu í bankaráð og alkunna var að stjórnmálamenn bæðu um fyrirgreiðslur fyrir tengda aðila. Almennt þótti það slæmt þegar þingmenn mæltu fyrir máli en al-slæmt þegar það voru ráðherrar.Vísir/Vilhelm Pólitíkin sem spillti fyrir Banka- og fjármálaumhverfið var svo sannarlega ólíkt því sem nú er, þegar Tryggvi hóf störf í Landsbankanum árið 1975. Langt var í hið stafræna umhverfi sem nú þekkist og á þessum tíma frekar að bankageirinn væri að hluta í takt við það sem gefið var til kynna í Verbúðarþáttunum frægu sem landinn fylgdist með í fyrra; Þar sem ítök stjórnmálamanna og pólitík virtust ríkja alls staðar. Svo mikil voru ítökin reyndar að þingmenn og ráðherrar hikuðu margir ekkert við að hafa samband við bankastjóra til að greiða fyrir fyrirgreiðslum vina eða vandamanna. „Bankarnir voru á þessum tíma ríkisbankar og í því samhengi er mikilvægt að skilja að ríkisbanki er allt annað en banki sem er í eigu ríkisins. Lengi vel eftir að ég byrjaði gekk allt út á það hjá stjórnendum banka að reyna að losna við pólitíkina. Enda hægði hún á allri framþróun og var í samanburði við aðrar þjóðir miklu lengur ríkjandi hér en annars staðar,“ segir Tryggvi. Þetta er á þeim tíma sem flokkarnir voru að skipa beint í bankaráðin og þegar stjórnmálamenn höfðu samband við bankana til að biðja um fyrirgreiðslur fyrir menn, var oft besta aðferðin að svara:, Já þannig að þú ert til í að skrifa upp á fyrir hann?“ Því þessi spurning var líklegasta leiðin til að fá viðkomandi pólitíkus til að bakka með beiðnina. Almennt var líka talað um það að þegar þingmaður væri að mæla fyrir lánagreiðslu þá væri málið slæmt. En þegar það var ráðherra, taldist það al-slæmt!“ Jónas H. Haralz var einn þriggja bankastjóra Landsbankans þegar Tryggvi var ráðinn og vísar Tryggvi oft til Jónasar sem sinn mentor í bankageiranum. Svo framsýnn var Jónas að sögn Tryggva að eitt fyrsta tækifærið sem Tryggvi fékk í sínu starfi var að heimsækja erlenda banka í London og síðan dvelja um margra vikna skeið í Danske Bank, SEB, Bergen Bank, Den norske Creditbank og Scandinavian Bank í New York. „Það sem ég lærði þarna úti dugði mér í mörg ár því þarna sá ég svo glöggt hversu langt á eftir íslenska bankakerfið var. Hjá okkur réði Seðlabankinn öllu; vöxtum innlána og útlána, þjónustugjöldum og fleiru. Það eina sem bankarnir gátu því keppst um var sparifé fólks og því voru útibúin mörg og um land allt, sem aftur þýddi verulegan kostnað í kerfinu.“ Tryggvi segir það hafa verið góða reynslu að taka þátt í að losa um þær reglur og umgjörð sem ríkti í íslensku bankaumhverfi um árabil. Þar sem smátt og smátt tókst að koma í gegn vaxtafrelsi, gjaldskrárfrelsi og fleiru sem stuðlaði að eðlilegra samkeppnisumhverfi. Skemmtilegasti tíminn voru hins vegar þessi tvö ár sem Tryggvi starfaði í Verslunarbankanum. „Þarna kynntist maður einkageiranum þar sem sveigjanleikinn var miklu meiri og stjórnendur opnir fyrir því að prófa nýja hluti. Þarna bjuggum við til vildarkerfi fyrir sparifjáreigendur og kjörvaxtakerfi fyrir lántakendur en fram að því höfðu allir setið við sama borð: Óháð því hversu vænlegir viðskiptavinir þeir væru! Grunnvextirnir voru þeir sömu og skipti þá engu hvort við værum að tala um Jón Jónsson út í bæ eða Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Hvati til góðra viðskipta varð í raun ekki til fyrr en kjörvaxtarkerfið kemur til.“ Tryggvi gegndi síðar lykilhlutverki í því að sameina þá fjóra banka sem síðar urðu að Íslandsbanka. En nú látum við skilið við bankageirann í bili. Eiginkona Tryggva er Rannveig Gunnarsdóttir fyrrverandi forstjóri Lyfjastofnunar. Þegar Tryggvi og Rannveig giftu sig, 3.október árið 1970, þurftu þau að fá uppáskrifað forsetabréf vegna þess að Rannveig var ekki orðin 21 árs. Tryggvi segir það hafa þótt eðlilegt og sjálfsagt hér heima að fólk gifti sig svona ungt. Annað var uppi á teningnum í London þar sem ungu hjónin bjuggu á meðan Tryggvi var í námi.Vísir/Einkasafn, Vilhelm Með forsetabréf fyrir ung hjón Tryggvi og Rannveig byrjuðu saman árið 1968 þegar þau voru í fimmta bekk í MR. Þau giftu sig þann 3. október árið 1970 en þá var Tryggvi þá þegar orðin 21 árs en Rannveig enn tvítug því hún á ekki afmæli fyrr en í nóvember. „Þar sem Rannveig var ekki orðin 21 árs þurftum við að fá uppáskrifað forsetabréf til að fá að giftast,“ segir Tryggvi og hlær. „En jafn eðlilegt og það þótti hér heima að giftast svona ungur, var það ekki svo erlendis. Í London voru því margir hissa á því að við værum gift og Rannveig var meira að segja einu sinni spurð af því hvort maðurinn hennar væri þá einhver cradle snatcher (innskot: einstaklingur sem kýs að vera með mun yngri maka) því fólki datt það helst í hug þegar það heyrði svona unga konu segja að hún væri gift.“ Þegar Tryggvi og Rannveig fluttu til London höfðu þau þá þegar lokið háskólanámi heima og voru búin að kaupa sér sína fyrstu íbúð. „Ég hafði þénað ágætlega á sumarstörfunum mínum og við byrjuðum á því að kaupa okkur 47 fermetra ósamþykkta kjallaraíbúð í Stóragerði. Sem var eitt herbergi, eldhús og bað.“ Tryggvi segir þann mun hafa einkennt ungt fólk á Íslandi í samanburði við erlendis að hér var löngunin í að verða sjálfstæður og standa á eiginn fótum svo áberandi. Að gifta sig, hefja búskap eða festa kaup á húsnæði þótti eðlilegt og sjálfsagt að gera, þótt fólk væri aðeins um tvítugt eða lítið eldra. Það var þó ekki fyrr en eftir heimkomuna og nokkru síðar sem börnin komu en þau eru Gunnar Páll (f.1977), kvæntur Karen Axelsdóttur og Sólveig Lísa (f.1980) gift Guðmundi Gísla Ingólfssyni. Barnabörnin eru í dag sex að tölu. Tryggva verður síðar í samtali tíðrætt um hversu mikilvægt það er að rækta fjölskylduna. Það er líka oft sagt að þegar fólk eldist og heilsan fer að bresta, þá er það fjölskyldan sem er baklandið; Kemur til þín í heimsókn reglulega og svo framvegis. Á meðan kunningjar og vinir biðja fyrir kveðju,“ segir Tryggvi en bætir við: „Ég er þó ekki að segja að fólk eigi að rækta fjölskylduböndin eingöngu vegna þess að fólk er skylt. Því ef það er einhver nákominn þér sem er ekki að gefa þér góða orku eða þig langar ekki að vera í samvistum við, þá ber engum skylda til þess að rækta þau bönd eitthvað sérstaklega aðeins vegna ættartengsla.“ Í dag búa hjónin í afar fallegri íbúð í Norðurmýrinni. Þar hafa þau verið í 42 ár og hefur bæði íbúðin og garðurinn tekið stakkaskiptum á þeim tíma. „Svalahurðin niðri er þó orginal,“ segir Tryggvi þegar hann sýnir húsakynnin. Hola í höggi í Grikklandi! Áhugamálin hafa verið mörg hjá Tryggva í gegnum tíðina; hestar, golf, sveitin að Kóngsbakka, tónlist og fleira. Tryggvi hefur lengi einsett sér að prófa eitthvað nýtt á hverju ári. Neitar þó að fara í fallhlífastökk. Um árabil var Tryggvi þekktur í bankageiranum og fyrir miðju er mynd af Tryggva með kynningu í Seðlabankanum.Vísir/Einkasafn, Vilhelm Þegar hver og einn hugsar um sig Tryggvi segist ánægður þegar hann lítur til baka yfir starfsferilinn og alla þá reynslu eða tækifæri sem honum hefur gefist á þessum tíma. „Ég ætla reyndar aldrei að segja að ég sé hættur að vinna því ég ætla aldrei að hætta að vinna,“ segir Tryggvi sem starfar reyndar enn sem sjálfstæður ráðgjafi, sinnir kennslu, félagsstörfum og er í tilnefningarnefnd Festi svo eitthvað sé nefnt. Tryggvi hætti sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans árið 2011. Þegar hann varð sjötugur árið 2019, sagði hann í viðtali við Morgunblaðið: „Eftir 12 ár í þessum bönkum flutti ég mig árið 2000 yfir í Seðlabankann þar sem ég byggði upp svið sem fékkst við fjármálastöðugleika og greiðslukerfi. Í því vandasama starfi var ég í aðdraganda bankahrunsins, í hruninu sjálfu og í uppbyggingunni eftir það. Ég lauk þar störfum sama daginn sem prógrammi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lauk. Síðar átti ég eftir að gegna stöðu stjórnarformanns Landsbankans í þrjú ár og loka þannig hringnum.“ En hvað fékk Tryggva til að taka ákvörðun um að hætta árið 2011? „Ég var hreinlega úrvinda. Kominn með nóg,“ svarar Tryggvi. Í kjölfarið spinnast umræður um það áfall sem þjóðinn upplifði í kjölfar bankahrunsins. Og hversu mikið álagið var næstu árin á eftir. Álag sem margir hverjir gerðu sér ekki grein fyrir á þeim tíma, heldur síðar. Og hversu ólíkt hugarfar ríkti þá í samanburði við til dæmis heimsfaraldur og erfiðastan tíma Covid. Þegar öllum var ráðlagt að hlúa vel að sjálfum sér og huga ekkert síður að andlegri en líkamlegri líðan. Bankahrunið var samt svolítið eins og Covid að því leytinu til að þótt Ísland væri í samstarfi við margar aðrar þjóðir fyrir hrun, þá stóðum við ein þegar á reyndi. Rétt eins og gerðist í Covid; þegar verst var sýndi það sig að hver þjóð hugsaði aðeins um sig.“ Tryggvi segist ánægður með hvernig til tókst í uppbyggingunni eftir hrun. „Mér fannst til dæmis Steingrímur J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra standa sig mjög vel.“ En höggið var mikið og stórt þegar það kom. „Sumarið fyrir hrun höfðum við heyrt af umræðu á hæstu stöðum á alþjóða vettvangi að erfiðleikar væru framundan og að þá ætti ekki að reyna að bjarga öllum. Ísland sem eitt lítið land var án stuðnings og fátt um fína drætti. Fyrir hrun var líka tími þar sem útrásin var lofsungin og fáir vildu hlusta á viðvaranir og lesa á milli línanna. Í ritinu Fjármálastöðugleika Seðlabankans má til dæmis sjá að Seðlabankinn sagði aldrei allt frá nóvember 2003 að stöðugleikinn væri á uppleið þótt stemning og almenn umræða væri önnur.“ Nokkur atriði eru rifjuð upp frá hruninu sjálfu. Við vorum aðeins einum degi frá því að verða uppiskroppa með seðla í landinu. Því áhlaupin á bankana voru slík. Það sem bjargaði okkur var að við höfðum geymt gamla fimm þúsund króna og eitt þúsund króna seðla í hirslum bankans og björguðum okkur fyrir horn með því að setja þá aftur í umferð. En þetta stóð tæpt.“ Þá er um það rætt, hversu mikið kraftaverk það í raun var að greiðslukerfið stöðvaðist ekki, þrátt fyrir að bankarnir fengju nýja kennitölu að nóttu til. „Það hefðu allir fundið fyrir því ef þeir hefðu ekki komist í innistæðurnar sínar í netbankanum eða notað greiðslukortin. Í raun er með ólíkindum að það hafi tekist að halda greiðslukerfunum gangandi. Þarna unnu vel saman Reiknistofa bankanna, Seðabankinn, Fjármálaeftirlitið og starfsfólk viðskiptabankanna. Tryggvi segist líka ánægður með það eftir á að erlendir viðskiptaaðilar lokuðu ekki á Ísland þótt útlit hefði verið svart um tíma. Ekki síst eftir að Bretarnir settu Ísland á lista hryðjuverkaþjóða. „Þetta bjargaðist fyrir horn einfaldlega vegna þess að íslensku fyrirtækin voru í svo góðum persónulegum samskiptum við sína birgja erlendis.“ Verður nú sagt skilið við umræður um bankahrunið hér í þessu viðtali. Efst fv.: Á Kajak frá Kóngsbakka í Helgafellsveit þar sem Tryggvi og Rannveig eiga jörð og útihús ásamt fleiri fjölskyldum. Mynd af Tryggva og Rannveigu á Grænlandi, en hjónin hafa verið dugleg að ferðast í gegnum tíðina. Neðri mynd er fjölskyldumynd; börn, tengdabörn og barnabörn.Vísir/Einkasafn Þriðja æviskeiðið: Að finna frelsið Tryggvi segir að eftir að hann hætti í formlegri dagvinnu hafi það tekið hann um eitt ár að finna aftur fjölina. Hvernig hann ætlaði að nýta tímann og njóta frelsisins. „Það er nefnilega þannig og eflaust ekki síst hjá körlum, að sjálfsmyndin tengist svo mikið því sem við gerum. Þegar fólk hittist kynnir það sig fyrst með nafni en tiltekur síðan starfið sitt. Í samskiptum spyrjum við mikið um „Hvað ertu að gera?“ eða „Hvernig gengur?“ og svo framvegis.“ Sjálfur segist Tryggvi mjög hrifin af þeirri hugmyndafræði nýja Magnavitasamfélagsins að horfa til þriðja æviskeiðsins sem það besta; æviskeiðið þar sem hver og einn á að efla sig í að njóta sem mest, uppskera og vinna statt og stöðugt að því að fjölga góðum æviárum þannig að þau verði sem flest. ,,Þetta snýst helst um þrjú atriði: Góða líkamlega og andlega heilsu, tengslaneti við fjölskyldu og vini og síðan atriði númer þrjú sem er traustur fjárhagur. Að hafa ekki fjárhagslegar áhyggjur skiptir mjög miklu máli og því mikilvægt að fólk fari að huga að þeim málum snemma,“ segir Tryggvi en bætir við: En almennt finnst mér líka skipta höfuðmáli að verja tímanum aðeins með fólki sem gefur þér jákvæða orku. Láttu hitt fólkið bara vera sem dregur úr þér. Að vera með yngra fólki finnst mér líka mjög gott því við lærum svo mikið af því.“ Það er reyndar mikið að gera hjá Tryggva, það er augljóst. Enda segist hann halda utan um sín verkefni í tölvunni þar sem hann sér hvað er á döfinni fyrir hvert tímabil. „Það skiptir líka svo miklu máli að hafa alltaf eitthvað að hlakka til.“ Daginn eftir viðtalið er Tryggvi til dæmis bókaður með gítarinn sinn til að spila í upphafi Rótarýfundar en í Rótarý og Frímúrarareglunni hefur hann tekið þátt til fjölda ára. Að spila á gítar er mun nýrri iðja: „Ég kann reyndar lítið á gítar. Byrjaði seint. En fékk til liðs við mig menn sem kunna meira en ég og það eru þeir Eyjólfur Árni Rafnsson og Hrólfur Jónsson. Saman myndum við gleðisveitina Tríó Tryggva Pálssonar sem hefur gefið út tvo diska, komið tvisvar fram í Hörpu og við erum meira að segja á Spotify,“ segir Tryggvi kampakátur. En tekur þó fram að diskurinn hafi ekki selst í einu einasta eintaki heldur verið gefinn vinum og vandamönnum. „Og auðvitað höfum við ekki fengið krónu frá Spotify heldur,“ segir Tryggvi og hlær. Maður á að verja tímanum með jákvæðu fólki en láta aðra vera segir Tryggvi sem alltaf hefur verið virkur í félagsstörfum og með mörg áhugamál. Á mynd til vinstri eru bekkjarbræður og stúdentar frá MR árið 1969: Stúdentar og bekkjarbræður 1969: Ragnar Árnason (prófessor), Þorlákur H. Helgason (Inspector scholae) og Tryggvi (Formaður 6. bekkjarráðs). Á mynd til hægri má sjá meðlimi Tríó Tryggva Pálssonar: Tryggva, Eyjólf Árna Rafnsson og Hrólf Jónsson. Vísir/Einkasafn Góðu ráðin: Segðu JÁ! Í gegnum árin hafa Tryggvi og Rannveig stundað alls kyns áhugamál. Voru í hestunum í mörg ár, síðan í golfi og þá er ótalin sveitin að Kóngsbakka í Helgafellsveit. „Við erum þar sjö fjölskyldur sem eigum saman jörð og útihús. Og leggjum mikið upp úr að gera sem mest sjálf. Hvort sem er að gera við þak, mála húsin, smíða palla eða sinna girðingavinnu. Þetta er rosalega gaman en við gerum þetta líka vel,“ segir Tryggvi og skýrir út að utanumhald sé í gegnum einkahlutafélag. „Fólk gerir nefnilega stundum þau mistök að eiga eignir saman, til dæmis vinahópar, án þess að utan umhaldið sé skýrt. Þá geta mál oft orðið erfiðari ef eitthvað kemur upp og allir telja sig hafa neitunarvald. Ég mæli því eindregið með því að halda utan um svona sameignir með einkahlutafélagi. Þá eru allir reikningar upp á borðum, haldnir eru aðalfundir og stjórnarfundir og ef eitthvað þarf að taka ákvörðun um, er það meirihluti sem ræður.“ En þetta er ekki allt því áhugamálin spanna líka tímabil eins og að eiga bát, stunda seglbretti og fleira. „Ég set samt mörkin við fallhlífarstökk. Ég mun aldrei fara í það!“ segir Tryggvi sem segir að það sem hann hafi reyndar gert lengi er að setja sér markmið um að prófa eitthvað nýtt á hverju ári. Í gegnum tíðina hefur Tryggvi líka verið virkur í alls kyns félagsstörfum og góðgerðarstarfi. Til dæmis með setu í stjórn Krabbameinsfélagsins en systir hans, móðir og amma létust fyrir aldur fram úr krabbameini. Að telja öll verkefni Tryggva síðastliðna áratugi er hins vegar frekar efni í bók en helgarviðtal; sagan hans er einfaldlega of viðamikil. Þó hætti Tryggvi fyrr en margir í fastri dagvinnu. „Það eru mjög margir sem enda með að hanga í starfinu sínu alltof lengi. Ef sú er líðanin, er frekar að horfa til þess að hætta og setja sér markmið um að gera eitthvað annað og meira skapandi. Því við þurfum öll á því að halda, eigum alltaf að vera að þjálfa heilann en verðum að gera okkur grein fyrir því að þriðja æviskeiðið er tímabil þar sem við berum sjálf ábyrgð á því hvernig til tekst. Ef ætlunin er að njóta vel og nýta þetta æviskeið vel, er undir okkur sjálfum komið að tryggja að svo verði.“ En hvað finnst þér fólk þurfa að hafa í huga, til viðbótar við góða andlega og líkamlega heilsu, sem vill halda sér virku og njóta tímans sem þetta þriðja æviskeið spannar? ,,Að segja oftar Já en Nei. Segja sem oftast Já en þó alltaf aðeins ef hugur fylgir máli og manni langar til að gera eitthvað. Líka að dvelja ekki við erfiðleikana heldur að njóta. Ég er ekki að segja að fólk eigi að fara í einhvern Pollýönnuleik, heldur frekar að viðhorfið sé að horfa ekki á neitt í lífinu sem takmarkanir, heldur frekar tækifæri,“ segir Tryggvi. Við hjónin vorum til dæmis að horfa á mjög athyglisverðan þátt þar sem rætt var við mann í hjólastól. Þessi maður er einstaklega jákvæður og að gera ótrúlega marga spennandi hluti. Ef fólk sem býr við þá stöðu að vera bundið hjólastól en lætur það ekki aftra sér frá því að lifa góðu og innihaldsríku lífi þá spyr ég: Hvers vegna ættum við þá ekki líka að gera það þegar við eldumst en höfum heilsu?“ Helgarviðtal Atvinnulífsins Tengdar fréttir 75 ára í IKEA: Trúði því alltaf að hún væri kraftaverkabarn „Nei ég var ekkert að hugsa um að hætta þegar að ég varð sjötug. Við fórum til Los Angeles og vorum þar, ég og börnin, í heimsókn hjá dóttur minni sem er búsett þar. Ég fékk líka 70 rósir í gjöf frá IKEA,“ segir Guðrún Hlín Þórarinsdóttir sem nú er 75 ára og enn í 100% starfi hjá IKEA. 6. nóvember 2022 08:01 Vilja breytt viðhorf: „Við erum eins og sett upp í hillu“ „Við erum eins og sett upp í hillu. Allur þessi mannauður verður að hilluvöru í neðstu hillunni þótt þarna sé á ferðinni fjölmennur og fjölbreyttur hópur sem fyrst og fremst vill lifa innihaldsríku og skemmtilegu lífi. Enda á þriðja æviskeiðið að vera besta æviskeiðið,“ segir Guðfinna S. Bjarnadóttir einn af stofnendum Magnavita. 2. nóvember 2022 07:00 Steinhissa þegar Halla Bondó svarar enn í símann „Þetta voru allt aðrir tímar og helst fyrirmenn sem fengu kreditkort. Og nánast engar konur því á þessum tíma voru það karlarnir sem voru skráðir fasteignaeigendurnir og þar með höfðu eiginkonurnar ekkert á bakvið sig,“ segir Halla Guðrún Jónsdóttir hjá SaltPay þegar hún rifjar upp fyrstu árin eftir að kreditkort voru kynnt til sögunnar á Íslandi. 5. júní 2022 09:01 „Maður er bara uppalinn þannig að í fríum væri maður ekkert að hangsa“ „Síðan var ég með rauðan matarlit sem ég setti í ísinn og bauð þá upp á hvítan ís og bleikan ís sem fólk hélt þá að væri einhver jarðaberjaís,“ segir Jón Magnússon og skellihlær. 8. maí 2022 08:00 „Sætur sjarmör og frægur, ég féll alveg fyrir honum“ Garðar Guðmundsson fagnar 80 ára afmælinu sínu í dag. Garðar er af fyrstu kynslóð rokksöngvara. Þótti sækja sinn stíl til Tommy Steele og varð síðar nafnkunnur sem hinn íslenski Cliff Richards. 19. maí 2022 07:01 „Það var við múrinn sem hugmyndin vaknaði“ Lífshlaup og starfsferill Sigríðar Snævarr sendiherra hljómar eflaust eins og eitt stórt ævintýri fyrir marga. Ráðherrar, forsetar, njósnir, ísjaki til Parísar, Páfastóll í Róm, núvitund og nýsköpun, Harvard, Björn í ABBA og svo mætti lengi telja. Fyrir þann sem hefur auga fyrir ævintýrum og segir sögu sína út frá þeim, er hvert ævintýrið á fætur öðru í sögu sem þó er hvergi nærri lokið. 31. janúar 2021 08:00 Mest lesið Baldvin sagði upp 99 manns sem mættu ekki á morgunfund Viðskipti innlent Grýlan sem segir vekjaranum að grjóthalda kjafti Atvinnulíf Einföld leið til að nýta hugmyndavinnu oftar Atvinnulíf Bölvað basl á Bond Viðskipti erlent Halda áfram bitcoin-braski þrátt fyrir samkomulag við AGS Viðskipti erlent Innkalla sviðasultu vegna gruns um listeríu Neytendur Standa vörð um bílastæði viðskiptavina Kringlunnar Viðskipti innlent Draga úr rafmyntarvæðingu til að fá lán frá AGS Viðskipti erlent Hærri barnabætur og ný gjöld á nikótínvörur á nýju ári Viðskipti innlent Sekta þau sem ekki greiða rétt fargjald um fimmtán þúsund krónur Viðskipti innlent Fleiri fréttir Grýlan sem segir vekjaranum að grjóthalda kjafti Einföld leið til að nýta hugmyndavinnu oftar „Ég spyr: Er í lagi að grípa í rass og þukla á brjóstum?“ Sterkasti fasteignasali landsins: Að verða pabbi breytti öllu „Tek góða bæn, þakka fyrir daginn og sofna á núll einni“ Hittust á stefnumótaappi og blása nú lífi í týndar sögur Skemmtilegir úlpustrákar: Vinir sem urðu viðskipta-vinir „Ég var alveg ákveðin í því að verða bankakona“ Fer í pyntingar með eiginkonunni tvo morgna í viku Bryndís tekur við af Dagmar hjá Austurbrú Ekki brenna út á aðventunni „Hápunktur morgunsins er síðan rómantíski kaffibíltúrinn“ Áhrif kosninga á starfsfólk og vinnustaði í næstu viku „Stelpupabbarnir eru ósjálfrátt betur á verði“ Driffjöður Vertonet: „Við erum að setja kjöt á beinin núna“ Velgengni í New York: „Mér finnst ég ekkert hafa verið hér mjög lengi“ Magga í Pfaff: „Ég man meira að segja hvar fyrsti kossinn var“ Fær nokkuð jákvæð viðbrögð þegar hann vandar sig í eldhúsinu Dagatalsmenningin: Rosa töff að vera með yfirbókaða dagskrá Vogue og forsetafrúin kveiktu strax en íslenski vinnumarkaðurinn með hindranir Inngildingin: „Íslenska töluð með hreim er samt íslenska“ Dæmi: „Tvær konur geta ekki unnið saman því einu sinni áttu þær sama kærasta“ „Unglingsárin voru kannski ekki mín heppilegustu ár“ „Pólitíkin er dugleg í þessu en einkageirinn kann þetta ekki nógu vel“ Að byggja upp vinnustað sem hræðist ekki breytingar Stærðin skiptir ekki máli Ólafur Ingi: „Ég er kostuð eiginkona“ Einróma niðurstaða að Hörður sé eins og Kristján í Frozen „Reglugerðin tekur gildi hvort sem menn hafa þetta hugrekki eða ekki“ Allt í steik: Samtalið við yfirmanninn Sjá meira
„Því þegar að við föllum frá má gera ráð fyrir að börnin okkar séu á sjötugsaldri og sjálf löngu búin að koma sér vel fyrir. Þau hafa fengið stuðning í uppeldinu, náminu og ef til vill við kaup á fyrstu íbúðinni. Þannig að til hvers að keppast við að eiga eitthvað til að arfleiða fullorðna afkomendur að í stað þess að njóta þess sem þú ert búinn að vinna þér fyrir?“ Tryggvi Pálsson er eitt þekktasta nafnið úr heimi banka- og fjármála síðustu áratugi. En ekkert síður fyrir kennslu eða þátttöku í félagsstörfum. Tryggvi fæddist 28. febrúar árið 1949 og er af vinum sagður „meistari í að njóta þriðja æviskeiðsins.“ Lýsing sem á vel við því sjálfur segir Tryggvi: „Þegar við erum komin á þetta tímabil í lífinu erum við okkar eiginn meistari,“ segir Tryggvi. Tryggvi útskýrir þetta nánar með því að vísa til þess hvernig dagskráin okkar framan af ævi er í raun nokkuð fyrirséð umgjörð sem heldur okkur uppteknum: Við erum börn í leik, förum í skóla, fullorðnumst, byggjum upp heimili og fjölskyldu, erum útivinnandi og störfum við ýmislegt. Loks kemur að þriðja æviskeiðinu. Sem með hækkandi lífaldri felur í sér mörg ár og jafnvel áratugi. „Þriðja æviskeiðið er hins vegar tímabil sem hver og einn verður að eiga við sjálfan sig,“ segir Tryggvi og brosir. Sjálfur hætti Tryggvi nokkuð snemma formlegri dagvinnu, eða 62 ára. En ljóst er að Tryggvi er langt frá því að hafa ekki nóg fyrir stafni. Ýmist sem ráðgjafi, stjórnarmaður, við kennslu, félagsstörf, að sinna áhugamálum, fjölskyldu, vinum og fleira. Þegar viðtalið er í undirbúningi hefjast samskiptin til dæmis í tölvupósti þar sem Tryggvi er ýmist staddur á flugvelli í Frankfurt eða annars staðar, á heimleið eftir góða ferð til Írans. Þessa helgina setjumst við niður með Tryggva og heyrum um það í hverju galdurinn felst: Hvernig verðum við okkar eigin meistarar þegar kemur að þriðja æviskeiðinu? Til vinstri er mynd af Tryggva við leik að Bessastöðum en Tryggvi er afabarn Ásgeirs Ásgeirssonar, fyrrum forseta Íslands. Tryggvi rifjar upp sumrin í sveitinni, sendlastarfið með peninga í tösku í Reykjavík, þegar greitt var í píku á Núpi í Dýrafirði og sumrin þegar farið var á sjó á síðutogurum.Vísir/Einkasafn, Vilhelm Gutti í sveit og á Bessastöðum Foreldrar Tryggva voru Páll Ásgeir Tryggvason sendiherra og Björg Ásgeirsdóttir sendiherrafrú. Hins vegar er full ástæða til að nefna sérstaklega móðurafa Tryggva líka, Ásgeir Ásgeirsson fyrrum forseta Íslands. Ásgeir var annar forseti Íslands og sá fyrsti sem kjörinn var í almennri kosningu. Ásgeir var forseti Íslands tímabilið 1952-1968 og því ekkert að undra að sumar æskuminningar Tryggva séu frá Bessastöðum. Um Ásgeir hafa verið ritaðar bækur. Einkum ævisaga Ásgeirs sem Gylfi Gröndal skrifaði og var gefin út árið 1992. Og bókin Ásgeir Ásgeirsson: Maðurinn og meistarinn sem Tryggvi sjálfur tók saman árið 2019. Það er reyndar svolítið skemmtilegt að um Ásgeir segir á bakhlið bókar: „Ásgeir hafði jákvæða afstöðu til lífsins og mannlegra samskipta og störf hans skiluðu árangri. Hann vann til góðs, naut hvarvetna mikillar virðingar og vinsælda og var hamingjusamur fjölskyldumaður.“ Sem er einmitt sambærileg lýsing og blaðamaður væri til í að kvitta upp á: Sem lýsingu á Tryggva sjálfum! Það eru þó ekki æskustundir á Bessastöðum sem koma fyrst upp í hugann þegar Tryggvi er spurður um æskuna. „Maður sér það alltaf betur og betur eftir því sem maður eldist, hvað fólk sem maður tengdist í æsku gefur manni mikla kjölfestu í lífinu. Ekki aðeins var ég heppinn með val á foreldrum og ömmum og öfum, heldur var ég líka hjá einstöku fólki í sjö sumur í sveit í Hraunkoti í Lóni,“ segir Tryggvi. „Það þótti svo sjálfsagt að börn færu í sveit á þessum tíma. Sem þykja mikil forréttindi í dag enda ekkert sjálfgefið að piltar kunni að tálga spýtur í dag eða reka nagla. Hvað þá að þeim séu gefnar sjálfskeiðungur eða vasahnífur í fermingagjöf.“ Það merkilega er þó að þótt engin ættartengsl væru við fólkið á Hraunkoti, voru fleiri en Tryggvi hjá þeim lengi í sveit. „Mamma var í sveit hjá þessu sama fólki og síðan börnin okkar Rannveigar,“ segir Tryggvi, en eiginkona hans er Rannveig Gunnarsdóttir lyfjafræðingur og fyrrverandi forstjóri Lyfjastofnunar. Þá er ljóst að Tryggvi byrjaði mjög snemma að vinna eins og algengt var í þá daga. „Ég var oft að sendast fyrir afa Tryggva,“ segir Tryggvi og á þar við föðurafa sinn Tryggva Ófeigsson sem lengi var mikill athafnamaður með útgerð og í viðskiptum við Útvegsbankann. Þá var maður sendur í Útvegsbankann að sækja háar fjárhæðir þegar greiða átti starfsfólki á Kirkjusandi laun í vikulok. Hugsaðu þér; maður var bara gutti að sendast á milli með margar milljónir í tösku. Þetta var nú ekkert flóknara.“ Í fjögur sumur starfaði Tryggvi síðan á síðutogurum: Í þrjú sumur á Júpíter en síðan eitt á Marz. Þá vann hann í fjögur sumur í Slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli og þrjú sumur í hagfræðideild Seðlabankans. Sem unglingur var Tryggvi líka í þrjú ár í dönskum skóla. Því þann tíma var faðir hans sendiráðunautur í Kaupmannahöfn. Þegar faðir hans færðist til starfa í sendiráðið í Stokkhólmi í Svíþjóð, fór Tryggvi hins vegar í heimavistarskólann á Núpi í Dýrafirði. „Það þótti ekki ganga að ég færi beint úr dönskum skóla í landsprófið heima því það myndi vanta upp á íslenskuna. Ég fór því í 2.bekk á Núpi til undirbúnings á landsprófi sem ég tók í Hagaskólanum ári síðar. Á Núpi undi ég hag mínum vel þótt skólakerfið væri allt annað og mjög ólíkt því sem var í Danmörku. Ég minnist sérstaklega leikferðar um Vestfirði með nemendaleikrit en eins sendinga sem komu til okkar. Amma og afi sendu mér stundum Assisbrúsa til að blanda smá appelsín á sunnudögum svo ekki sé talað um klístur í hárið til að geta greitt í píku. Það þótti nú mikið sport,“ segir Tryggvi og er skemmt af minningunni. Kennsla og bankastarfsemi einkennir starfsframa Tryggva sem gegnt hefur lykilstöðum í bankageiranum, í Seðlabanka Íslands og í stjórnum ýmissa fyrirtækja um árabil. Þótt Tryggvi hafi hætt í formlegri dagvinnu árið 2011 segist hann aldrei ætla að hætta að vinna. Enda starfar hann enn sem sjálfstæður ráðgjafi, sinnir kennslu og ýmislegt fleira.Vísir/Vilhelm Þekkingarbrunnurinn: Starfsframinn og reynslan Það er erfitt að verða ekki mjög upp hrifinn af ferilskrá Tryggva. Þar sem lykilstörf í bankageiranum eru einkennandi og ná hreinlega áratugi aftur í tímann. Kennsla hefur reyndar líka verið áberandi alla tíð og viðurkennir Tryggvi að hann hafi alltaf heillast af kennslu og þótt hún skemmtileg. Þó aldrei þannig að kennslan væri það sem hann vildi eingöngu leggja fyrir sig. Í mörg ár og allt frá sínum eigin námsárum hefur Tryggvi samt kennt. Lengst af þjóðhagfræði og bankafræði í meistaranámi. Í dag er Tryggvi meðal annars að kenna góða stjórnarhætti á vegum Akademías. Tryggvi útskrifaðist sem stúdent úr MR en fór síðan í viðskiptadeild Háskóla Íslands, þjóðhagskjarna. Tryggvi útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn og var lokaritgerðin hans valin til birtingar í Fjármálatíðindum. Næst var það framhaldsnám í London þaðan sem Tryggvi útskrifaðist með meistaragráðu í þjóðhagfræði frá London School of Economics and Political Science árið 1975. Um haustið hóf hann framhaldsnám í Queen Mary College en fékk þá boð um að byggja upp nýja hagfræði- og áætlanadeild hjá Landsbankanum. Tryggvi þáði boðið og héldu ungu hjónin aftur heim til Íslands. Hjá Landsbankanum starfaði Tryggvi frá 1976-1988, því næst sem bankastjóri í Verslunarbankanum þar sem hann tók virkan þátt í að leiða sameiningu þess banka og fleiri sem síðar urðu að Íslandsbanka. Hjá Íslandsbanka starfaði hann frá árinu 1990 til aldamóta þegar hann færði sig yfir í Seðlabanka Íslands þar sem hann starfaði til haustsins 2011. Samhliða þessu hefur Tryggvi setið í ýmsum stjórnum. Svo sem stjórnarformaður Landsbankans, ISB Holding, Reiknistofu bankanna, Kauphöll Íslands, Verðbréfaskráningu Íslands, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Glitni, Kreditkorti, Fjárfestingarfélagi Íslands og Féfangi. Eru þá ótaldar opinberar nefndir eða félagsstörf. Þannig að hvar skal byrja að ræða starfsframann við mann sem í umsögnum fær lýsingarorð eins og lykilmaður, brautryðjandi, frumkvöðull, virkur þáttakandi, leiðandi, aðalhvatamaður eða frábær kennari? Við skulum byrja á því að forvitnast um gamla tíma. Pólitíkin hafði mikil ítök í bankageiranum á Íslandi og mun lengur hér en hjá nágrannaþjóðum okkar.Flokkarnir skipuðu í bankaráð og alkunna var að stjórnmálamenn bæðu um fyrirgreiðslur fyrir tengda aðila. Almennt þótti það slæmt þegar þingmenn mæltu fyrir máli en al-slæmt þegar það voru ráðherrar.Vísir/Vilhelm Pólitíkin sem spillti fyrir Banka- og fjármálaumhverfið var svo sannarlega ólíkt því sem nú er, þegar Tryggvi hóf störf í Landsbankanum árið 1975. Langt var í hið stafræna umhverfi sem nú þekkist og á þessum tíma frekar að bankageirinn væri að hluta í takt við það sem gefið var til kynna í Verbúðarþáttunum frægu sem landinn fylgdist með í fyrra; Þar sem ítök stjórnmálamanna og pólitík virtust ríkja alls staðar. Svo mikil voru ítökin reyndar að þingmenn og ráðherrar hikuðu margir ekkert við að hafa samband við bankastjóra til að greiða fyrir fyrirgreiðslum vina eða vandamanna. „Bankarnir voru á þessum tíma ríkisbankar og í því samhengi er mikilvægt að skilja að ríkisbanki er allt annað en banki sem er í eigu ríkisins. Lengi vel eftir að ég byrjaði gekk allt út á það hjá stjórnendum banka að reyna að losna við pólitíkina. Enda hægði hún á allri framþróun og var í samanburði við aðrar þjóðir miklu lengur ríkjandi hér en annars staðar,“ segir Tryggvi. Þetta er á þeim tíma sem flokkarnir voru að skipa beint í bankaráðin og þegar stjórnmálamenn höfðu samband við bankana til að biðja um fyrirgreiðslur fyrir menn, var oft besta aðferðin að svara:, Já þannig að þú ert til í að skrifa upp á fyrir hann?“ Því þessi spurning var líklegasta leiðin til að fá viðkomandi pólitíkus til að bakka með beiðnina. Almennt var líka talað um það að þegar þingmaður væri að mæla fyrir lánagreiðslu þá væri málið slæmt. En þegar það var ráðherra, taldist það al-slæmt!“ Jónas H. Haralz var einn þriggja bankastjóra Landsbankans þegar Tryggvi var ráðinn og vísar Tryggvi oft til Jónasar sem sinn mentor í bankageiranum. Svo framsýnn var Jónas að sögn Tryggva að eitt fyrsta tækifærið sem Tryggvi fékk í sínu starfi var að heimsækja erlenda banka í London og síðan dvelja um margra vikna skeið í Danske Bank, SEB, Bergen Bank, Den norske Creditbank og Scandinavian Bank í New York. „Það sem ég lærði þarna úti dugði mér í mörg ár því þarna sá ég svo glöggt hversu langt á eftir íslenska bankakerfið var. Hjá okkur réði Seðlabankinn öllu; vöxtum innlána og útlána, þjónustugjöldum og fleiru. Það eina sem bankarnir gátu því keppst um var sparifé fólks og því voru útibúin mörg og um land allt, sem aftur þýddi verulegan kostnað í kerfinu.“ Tryggvi segir það hafa verið góða reynslu að taka þátt í að losa um þær reglur og umgjörð sem ríkti í íslensku bankaumhverfi um árabil. Þar sem smátt og smátt tókst að koma í gegn vaxtafrelsi, gjaldskrárfrelsi og fleiru sem stuðlaði að eðlilegra samkeppnisumhverfi. Skemmtilegasti tíminn voru hins vegar þessi tvö ár sem Tryggvi starfaði í Verslunarbankanum. „Þarna kynntist maður einkageiranum þar sem sveigjanleikinn var miklu meiri og stjórnendur opnir fyrir því að prófa nýja hluti. Þarna bjuggum við til vildarkerfi fyrir sparifjáreigendur og kjörvaxtakerfi fyrir lántakendur en fram að því höfðu allir setið við sama borð: Óháð því hversu vænlegir viðskiptavinir þeir væru! Grunnvextirnir voru þeir sömu og skipti þá engu hvort við værum að tala um Jón Jónsson út í bæ eða Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Hvati til góðra viðskipta varð í raun ekki til fyrr en kjörvaxtarkerfið kemur til.“ Tryggvi gegndi síðar lykilhlutverki í því að sameina þá fjóra banka sem síðar urðu að Íslandsbanka. En nú látum við skilið við bankageirann í bili. Eiginkona Tryggva er Rannveig Gunnarsdóttir fyrrverandi forstjóri Lyfjastofnunar. Þegar Tryggvi og Rannveig giftu sig, 3.október árið 1970, þurftu þau að fá uppáskrifað forsetabréf vegna þess að Rannveig var ekki orðin 21 árs. Tryggvi segir það hafa þótt eðlilegt og sjálfsagt hér heima að fólk gifti sig svona ungt. Annað var uppi á teningnum í London þar sem ungu hjónin bjuggu á meðan Tryggvi var í námi.Vísir/Einkasafn, Vilhelm Með forsetabréf fyrir ung hjón Tryggvi og Rannveig byrjuðu saman árið 1968 þegar þau voru í fimmta bekk í MR. Þau giftu sig þann 3. október árið 1970 en þá var Tryggvi þá þegar orðin 21 árs en Rannveig enn tvítug því hún á ekki afmæli fyrr en í nóvember. „Þar sem Rannveig var ekki orðin 21 árs þurftum við að fá uppáskrifað forsetabréf til að fá að giftast,“ segir Tryggvi og hlær. „En jafn eðlilegt og það þótti hér heima að giftast svona ungur, var það ekki svo erlendis. Í London voru því margir hissa á því að við værum gift og Rannveig var meira að segja einu sinni spurð af því hvort maðurinn hennar væri þá einhver cradle snatcher (innskot: einstaklingur sem kýs að vera með mun yngri maka) því fólki datt það helst í hug þegar það heyrði svona unga konu segja að hún væri gift.“ Þegar Tryggvi og Rannveig fluttu til London höfðu þau þá þegar lokið háskólanámi heima og voru búin að kaupa sér sína fyrstu íbúð. „Ég hafði þénað ágætlega á sumarstörfunum mínum og við byrjuðum á því að kaupa okkur 47 fermetra ósamþykkta kjallaraíbúð í Stóragerði. Sem var eitt herbergi, eldhús og bað.“ Tryggvi segir þann mun hafa einkennt ungt fólk á Íslandi í samanburði við erlendis að hér var löngunin í að verða sjálfstæður og standa á eiginn fótum svo áberandi. Að gifta sig, hefja búskap eða festa kaup á húsnæði þótti eðlilegt og sjálfsagt að gera, þótt fólk væri aðeins um tvítugt eða lítið eldra. Það var þó ekki fyrr en eftir heimkomuna og nokkru síðar sem börnin komu en þau eru Gunnar Páll (f.1977), kvæntur Karen Axelsdóttur og Sólveig Lísa (f.1980) gift Guðmundi Gísla Ingólfssyni. Barnabörnin eru í dag sex að tölu. Tryggva verður síðar í samtali tíðrætt um hversu mikilvægt það er að rækta fjölskylduna. Það er líka oft sagt að þegar fólk eldist og heilsan fer að bresta, þá er það fjölskyldan sem er baklandið; Kemur til þín í heimsókn reglulega og svo framvegis. Á meðan kunningjar og vinir biðja fyrir kveðju,“ segir Tryggvi en bætir við: „Ég er þó ekki að segja að fólk eigi að rækta fjölskylduböndin eingöngu vegna þess að fólk er skylt. Því ef það er einhver nákominn þér sem er ekki að gefa þér góða orku eða þig langar ekki að vera í samvistum við, þá ber engum skylda til þess að rækta þau bönd eitthvað sérstaklega aðeins vegna ættartengsla.“ Í dag búa hjónin í afar fallegri íbúð í Norðurmýrinni. Þar hafa þau verið í 42 ár og hefur bæði íbúðin og garðurinn tekið stakkaskiptum á þeim tíma. „Svalahurðin niðri er þó orginal,“ segir Tryggvi þegar hann sýnir húsakynnin. Hola í höggi í Grikklandi! Áhugamálin hafa verið mörg hjá Tryggva í gegnum tíðina; hestar, golf, sveitin að Kóngsbakka, tónlist og fleira. Tryggvi hefur lengi einsett sér að prófa eitthvað nýtt á hverju ári. Neitar þó að fara í fallhlífastökk. Um árabil var Tryggvi þekktur í bankageiranum og fyrir miðju er mynd af Tryggva með kynningu í Seðlabankanum.Vísir/Einkasafn, Vilhelm Þegar hver og einn hugsar um sig Tryggvi segist ánægður þegar hann lítur til baka yfir starfsferilinn og alla þá reynslu eða tækifæri sem honum hefur gefist á þessum tíma. „Ég ætla reyndar aldrei að segja að ég sé hættur að vinna því ég ætla aldrei að hætta að vinna,“ segir Tryggvi sem starfar reyndar enn sem sjálfstæður ráðgjafi, sinnir kennslu, félagsstörfum og er í tilnefningarnefnd Festi svo eitthvað sé nefnt. Tryggvi hætti sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans árið 2011. Þegar hann varð sjötugur árið 2019, sagði hann í viðtali við Morgunblaðið: „Eftir 12 ár í þessum bönkum flutti ég mig árið 2000 yfir í Seðlabankann þar sem ég byggði upp svið sem fékkst við fjármálastöðugleika og greiðslukerfi. Í því vandasama starfi var ég í aðdraganda bankahrunsins, í hruninu sjálfu og í uppbyggingunni eftir það. Ég lauk þar störfum sama daginn sem prógrammi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lauk. Síðar átti ég eftir að gegna stöðu stjórnarformanns Landsbankans í þrjú ár og loka þannig hringnum.“ En hvað fékk Tryggva til að taka ákvörðun um að hætta árið 2011? „Ég var hreinlega úrvinda. Kominn með nóg,“ svarar Tryggvi. Í kjölfarið spinnast umræður um það áfall sem þjóðinn upplifði í kjölfar bankahrunsins. Og hversu mikið álagið var næstu árin á eftir. Álag sem margir hverjir gerðu sér ekki grein fyrir á þeim tíma, heldur síðar. Og hversu ólíkt hugarfar ríkti þá í samanburði við til dæmis heimsfaraldur og erfiðastan tíma Covid. Þegar öllum var ráðlagt að hlúa vel að sjálfum sér og huga ekkert síður að andlegri en líkamlegri líðan. Bankahrunið var samt svolítið eins og Covid að því leytinu til að þótt Ísland væri í samstarfi við margar aðrar þjóðir fyrir hrun, þá stóðum við ein þegar á reyndi. Rétt eins og gerðist í Covid; þegar verst var sýndi það sig að hver þjóð hugsaði aðeins um sig.“ Tryggvi segist ánægður með hvernig til tókst í uppbyggingunni eftir hrun. „Mér fannst til dæmis Steingrímur J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra standa sig mjög vel.“ En höggið var mikið og stórt þegar það kom. „Sumarið fyrir hrun höfðum við heyrt af umræðu á hæstu stöðum á alþjóða vettvangi að erfiðleikar væru framundan og að þá ætti ekki að reyna að bjarga öllum. Ísland sem eitt lítið land var án stuðnings og fátt um fína drætti. Fyrir hrun var líka tími þar sem útrásin var lofsungin og fáir vildu hlusta á viðvaranir og lesa á milli línanna. Í ritinu Fjármálastöðugleika Seðlabankans má til dæmis sjá að Seðlabankinn sagði aldrei allt frá nóvember 2003 að stöðugleikinn væri á uppleið þótt stemning og almenn umræða væri önnur.“ Nokkur atriði eru rifjuð upp frá hruninu sjálfu. Við vorum aðeins einum degi frá því að verða uppiskroppa með seðla í landinu. Því áhlaupin á bankana voru slík. Það sem bjargaði okkur var að við höfðum geymt gamla fimm þúsund króna og eitt þúsund króna seðla í hirslum bankans og björguðum okkur fyrir horn með því að setja þá aftur í umferð. En þetta stóð tæpt.“ Þá er um það rætt, hversu mikið kraftaverk það í raun var að greiðslukerfið stöðvaðist ekki, þrátt fyrir að bankarnir fengju nýja kennitölu að nóttu til. „Það hefðu allir fundið fyrir því ef þeir hefðu ekki komist í innistæðurnar sínar í netbankanum eða notað greiðslukortin. Í raun er með ólíkindum að það hafi tekist að halda greiðslukerfunum gangandi. Þarna unnu vel saman Reiknistofa bankanna, Seðabankinn, Fjármálaeftirlitið og starfsfólk viðskiptabankanna. Tryggvi segist líka ánægður með það eftir á að erlendir viðskiptaaðilar lokuðu ekki á Ísland þótt útlit hefði verið svart um tíma. Ekki síst eftir að Bretarnir settu Ísland á lista hryðjuverkaþjóða. „Þetta bjargaðist fyrir horn einfaldlega vegna þess að íslensku fyrirtækin voru í svo góðum persónulegum samskiptum við sína birgja erlendis.“ Verður nú sagt skilið við umræður um bankahrunið hér í þessu viðtali. Efst fv.: Á Kajak frá Kóngsbakka í Helgafellsveit þar sem Tryggvi og Rannveig eiga jörð og útihús ásamt fleiri fjölskyldum. Mynd af Tryggva og Rannveigu á Grænlandi, en hjónin hafa verið dugleg að ferðast í gegnum tíðina. Neðri mynd er fjölskyldumynd; börn, tengdabörn og barnabörn.Vísir/Einkasafn Þriðja æviskeiðið: Að finna frelsið Tryggvi segir að eftir að hann hætti í formlegri dagvinnu hafi það tekið hann um eitt ár að finna aftur fjölina. Hvernig hann ætlaði að nýta tímann og njóta frelsisins. „Það er nefnilega þannig og eflaust ekki síst hjá körlum, að sjálfsmyndin tengist svo mikið því sem við gerum. Þegar fólk hittist kynnir það sig fyrst með nafni en tiltekur síðan starfið sitt. Í samskiptum spyrjum við mikið um „Hvað ertu að gera?“ eða „Hvernig gengur?“ og svo framvegis.“ Sjálfur segist Tryggvi mjög hrifin af þeirri hugmyndafræði nýja Magnavitasamfélagsins að horfa til þriðja æviskeiðsins sem það besta; æviskeiðið þar sem hver og einn á að efla sig í að njóta sem mest, uppskera og vinna statt og stöðugt að því að fjölga góðum æviárum þannig að þau verði sem flest. ,,Þetta snýst helst um þrjú atriði: Góða líkamlega og andlega heilsu, tengslaneti við fjölskyldu og vini og síðan atriði númer þrjú sem er traustur fjárhagur. Að hafa ekki fjárhagslegar áhyggjur skiptir mjög miklu máli og því mikilvægt að fólk fari að huga að þeim málum snemma,“ segir Tryggvi en bætir við: En almennt finnst mér líka skipta höfuðmáli að verja tímanum aðeins með fólki sem gefur þér jákvæða orku. Láttu hitt fólkið bara vera sem dregur úr þér. Að vera með yngra fólki finnst mér líka mjög gott því við lærum svo mikið af því.“ Það er reyndar mikið að gera hjá Tryggva, það er augljóst. Enda segist hann halda utan um sín verkefni í tölvunni þar sem hann sér hvað er á döfinni fyrir hvert tímabil. „Það skiptir líka svo miklu máli að hafa alltaf eitthvað að hlakka til.“ Daginn eftir viðtalið er Tryggvi til dæmis bókaður með gítarinn sinn til að spila í upphafi Rótarýfundar en í Rótarý og Frímúrarareglunni hefur hann tekið þátt til fjölda ára. Að spila á gítar er mun nýrri iðja: „Ég kann reyndar lítið á gítar. Byrjaði seint. En fékk til liðs við mig menn sem kunna meira en ég og það eru þeir Eyjólfur Árni Rafnsson og Hrólfur Jónsson. Saman myndum við gleðisveitina Tríó Tryggva Pálssonar sem hefur gefið út tvo diska, komið tvisvar fram í Hörpu og við erum meira að segja á Spotify,“ segir Tryggvi kampakátur. En tekur þó fram að diskurinn hafi ekki selst í einu einasta eintaki heldur verið gefinn vinum og vandamönnum. „Og auðvitað höfum við ekki fengið krónu frá Spotify heldur,“ segir Tryggvi og hlær. Maður á að verja tímanum með jákvæðu fólki en láta aðra vera segir Tryggvi sem alltaf hefur verið virkur í félagsstörfum og með mörg áhugamál. Á mynd til vinstri eru bekkjarbræður og stúdentar frá MR árið 1969: Stúdentar og bekkjarbræður 1969: Ragnar Árnason (prófessor), Þorlákur H. Helgason (Inspector scholae) og Tryggvi (Formaður 6. bekkjarráðs). Á mynd til hægri má sjá meðlimi Tríó Tryggva Pálssonar: Tryggva, Eyjólf Árna Rafnsson og Hrólf Jónsson. Vísir/Einkasafn Góðu ráðin: Segðu JÁ! Í gegnum árin hafa Tryggvi og Rannveig stundað alls kyns áhugamál. Voru í hestunum í mörg ár, síðan í golfi og þá er ótalin sveitin að Kóngsbakka í Helgafellsveit. „Við erum þar sjö fjölskyldur sem eigum saman jörð og útihús. Og leggjum mikið upp úr að gera sem mest sjálf. Hvort sem er að gera við þak, mála húsin, smíða palla eða sinna girðingavinnu. Þetta er rosalega gaman en við gerum þetta líka vel,“ segir Tryggvi og skýrir út að utanumhald sé í gegnum einkahlutafélag. „Fólk gerir nefnilega stundum þau mistök að eiga eignir saman, til dæmis vinahópar, án þess að utan umhaldið sé skýrt. Þá geta mál oft orðið erfiðari ef eitthvað kemur upp og allir telja sig hafa neitunarvald. Ég mæli því eindregið með því að halda utan um svona sameignir með einkahlutafélagi. Þá eru allir reikningar upp á borðum, haldnir eru aðalfundir og stjórnarfundir og ef eitthvað þarf að taka ákvörðun um, er það meirihluti sem ræður.“ En þetta er ekki allt því áhugamálin spanna líka tímabil eins og að eiga bát, stunda seglbretti og fleira. „Ég set samt mörkin við fallhlífarstökk. Ég mun aldrei fara í það!“ segir Tryggvi sem segir að það sem hann hafi reyndar gert lengi er að setja sér markmið um að prófa eitthvað nýtt á hverju ári. Í gegnum tíðina hefur Tryggvi líka verið virkur í alls kyns félagsstörfum og góðgerðarstarfi. Til dæmis með setu í stjórn Krabbameinsfélagsins en systir hans, móðir og amma létust fyrir aldur fram úr krabbameini. Að telja öll verkefni Tryggva síðastliðna áratugi er hins vegar frekar efni í bók en helgarviðtal; sagan hans er einfaldlega of viðamikil. Þó hætti Tryggvi fyrr en margir í fastri dagvinnu. „Það eru mjög margir sem enda með að hanga í starfinu sínu alltof lengi. Ef sú er líðanin, er frekar að horfa til þess að hætta og setja sér markmið um að gera eitthvað annað og meira skapandi. Því við þurfum öll á því að halda, eigum alltaf að vera að þjálfa heilann en verðum að gera okkur grein fyrir því að þriðja æviskeiðið er tímabil þar sem við berum sjálf ábyrgð á því hvernig til tekst. Ef ætlunin er að njóta vel og nýta þetta æviskeið vel, er undir okkur sjálfum komið að tryggja að svo verði.“ En hvað finnst þér fólk þurfa að hafa í huga, til viðbótar við góða andlega og líkamlega heilsu, sem vill halda sér virku og njóta tímans sem þetta þriðja æviskeið spannar? ,,Að segja oftar Já en Nei. Segja sem oftast Já en þó alltaf aðeins ef hugur fylgir máli og manni langar til að gera eitthvað. Líka að dvelja ekki við erfiðleikana heldur að njóta. Ég er ekki að segja að fólk eigi að fara í einhvern Pollýönnuleik, heldur frekar að viðhorfið sé að horfa ekki á neitt í lífinu sem takmarkanir, heldur frekar tækifæri,“ segir Tryggvi. Við hjónin vorum til dæmis að horfa á mjög athyglisverðan þátt þar sem rætt var við mann í hjólastól. Þessi maður er einstaklega jákvæður og að gera ótrúlega marga spennandi hluti. Ef fólk sem býr við þá stöðu að vera bundið hjólastól en lætur það ekki aftra sér frá því að lifa góðu og innihaldsríku lífi þá spyr ég: Hvers vegna ættum við þá ekki líka að gera það þegar við eldumst en höfum heilsu?“
Helgarviðtal Atvinnulífsins Tengdar fréttir 75 ára í IKEA: Trúði því alltaf að hún væri kraftaverkabarn „Nei ég var ekkert að hugsa um að hætta þegar að ég varð sjötug. Við fórum til Los Angeles og vorum þar, ég og börnin, í heimsókn hjá dóttur minni sem er búsett þar. Ég fékk líka 70 rósir í gjöf frá IKEA,“ segir Guðrún Hlín Þórarinsdóttir sem nú er 75 ára og enn í 100% starfi hjá IKEA. 6. nóvember 2022 08:01 Vilja breytt viðhorf: „Við erum eins og sett upp í hillu“ „Við erum eins og sett upp í hillu. Allur þessi mannauður verður að hilluvöru í neðstu hillunni þótt þarna sé á ferðinni fjölmennur og fjölbreyttur hópur sem fyrst og fremst vill lifa innihaldsríku og skemmtilegu lífi. Enda á þriðja æviskeiðið að vera besta æviskeiðið,“ segir Guðfinna S. Bjarnadóttir einn af stofnendum Magnavita. 2. nóvember 2022 07:00 Steinhissa þegar Halla Bondó svarar enn í símann „Þetta voru allt aðrir tímar og helst fyrirmenn sem fengu kreditkort. Og nánast engar konur því á þessum tíma voru það karlarnir sem voru skráðir fasteignaeigendurnir og þar með höfðu eiginkonurnar ekkert á bakvið sig,“ segir Halla Guðrún Jónsdóttir hjá SaltPay þegar hún rifjar upp fyrstu árin eftir að kreditkort voru kynnt til sögunnar á Íslandi. 5. júní 2022 09:01 „Maður er bara uppalinn þannig að í fríum væri maður ekkert að hangsa“ „Síðan var ég með rauðan matarlit sem ég setti í ísinn og bauð þá upp á hvítan ís og bleikan ís sem fólk hélt þá að væri einhver jarðaberjaís,“ segir Jón Magnússon og skellihlær. 8. maí 2022 08:00 „Sætur sjarmör og frægur, ég féll alveg fyrir honum“ Garðar Guðmundsson fagnar 80 ára afmælinu sínu í dag. Garðar er af fyrstu kynslóð rokksöngvara. Þótti sækja sinn stíl til Tommy Steele og varð síðar nafnkunnur sem hinn íslenski Cliff Richards. 19. maí 2022 07:01 „Það var við múrinn sem hugmyndin vaknaði“ Lífshlaup og starfsferill Sigríðar Snævarr sendiherra hljómar eflaust eins og eitt stórt ævintýri fyrir marga. Ráðherrar, forsetar, njósnir, ísjaki til Parísar, Páfastóll í Róm, núvitund og nýsköpun, Harvard, Björn í ABBA og svo mætti lengi telja. Fyrir þann sem hefur auga fyrir ævintýrum og segir sögu sína út frá þeim, er hvert ævintýrið á fætur öðru í sögu sem þó er hvergi nærri lokið. 31. janúar 2021 08:00 Mest lesið Baldvin sagði upp 99 manns sem mættu ekki á morgunfund Viðskipti innlent Grýlan sem segir vekjaranum að grjóthalda kjafti Atvinnulíf Einföld leið til að nýta hugmyndavinnu oftar Atvinnulíf Bölvað basl á Bond Viðskipti erlent Halda áfram bitcoin-braski þrátt fyrir samkomulag við AGS Viðskipti erlent Innkalla sviðasultu vegna gruns um listeríu Neytendur Standa vörð um bílastæði viðskiptavina Kringlunnar Viðskipti innlent Draga úr rafmyntarvæðingu til að fá lán frá AGS Viðskipti erlent Hærri barnabætur og ný gjöld á nikótínvörur á nýju ári Viðskipti innlent Sekta þau sem ekki greiða rétt fargjald um fimmtán þúsund krónur Viðskipti innlent Fleiri fréttir Grýlan sem segir vekjaranum að grjóthalda kjafti Einföld leið til að nýta hugmyndavinnu oftar „Ég spyr: Er í lagi að grípa í rass og þukla á brjóstum?“ Sterkasti fasteignasali landsins: Að verða pabbi breytti öllu „Tek góða bæn, þakka fyrir daginn og sofna á núll einni“ Hittust á stefnumótaappi og blása nú lífi í týndar sögur Skemmtilegir úlpustrákar: Vinir sem urðu viðskipta-vinir „Ég var alveg ákveðin í því að verða bankakona“ Fer í pyntingar með eiginkonunni tvo morgna í viku Bryndís tekur við af Dagmar hjá Austurbrú Ekki brenna út á aðventunni „Hápunktur morgunsins er síðan rómantíski kaffibíltúrinn“ Áhrif kosninga á starfsfólk og vinnustaði í næstu viku „Stelpupabbarnir eru ósjálfrátt betur á verði“ Driffjöður Vertonet: „Við erum að setja kjöt á beinin núna“ Velgengni í New York: „Mér finnst ég ekkert hafa verið hér mjög lengi“ Magga í Pfaff: „Ég man meira að segja hvar fyrsti kossinn var“ Fær nokkuð jákvæð viðbrögð þegar hann vandar sig í eldhúsinu Dagatalsmenningin: Rosa töff að vera með yfirbókaða dagskrá Vogue og forsetafrúin kveiktu strax en íslenski vinnumarkaðurinn með hindranir Inngildingin: „Íslenska töluð með hreim er samt íslenska“ Dæmi: „Tvær konur geta ekki unnið saman því einu sinni áttu þær sama kærasta“ „Unglingsárin voru kannski ekki mín heppilegustu ár“ „Pólitíkin er dugleg í þessu en einkageirinn kann þetta ekki nógu vel“ Að byggja upp vinnustað sem hræðist ekki breytingar Stærðin skiptir ekki máli Ólafur Ingi: „Ég er kostuð eiginkona“ Einróma niðurstaða að Hörður sé eins og Kristján í Frozen „Reglugerðin tekur gildi hvort sem menn hafa þetta hugrekki eða ekki“ Allt í steik: Samtalið við yfirmanninn Sjá meira
75 ára í IKEA: Trúði því alltaf að hún væri kraftaverkabarn „Nei ég var ekkert að hugsa um að hætta þegar að ég varð sjötug. Við fórum til Los Angeles og vorum þar, ég og börnin, í heimsókn hjá dóttur minni sem er búsett þar. Ég fékk líka 70 rósir í gjöf frá IKEA,“ segir Guðrún Hlín Þórarinsdóttir sem nú er 75 ára og enn í 100% starfi hjá IKEA. 6. nóvember 2022 08:01
Vilja breytt viðhorf: „Við erum eins og sett upp í hillu“ „Við erum eins og sett upp í hillu. Allur þessi mannauður verður að hilluvöru í neðstu hillunni þótt þarna sé á ferðinni fjölmennur og fjölbreyttur hópur sem fyrst og fremst vill lifa innihaldsríku og skemmtilegu lífi. Enda á þriðja æviskeiðið að vera besta æviskeiðið,“ segir Guðfinna S. Bjarnadóttir einn af stofnendum Magnavita. 2. nóvember 2022 07:00
Steinhissa þegar Halla Bondó svarar enn í símann „Þetta voru allt aðrir tímar og helst fyrirmenn sem fengu kreditkort. Og nánast engar konur því á þessum tíma voru það karlarnir sem voru skráðir fasteignaeigendurnir og þar með höfðu eiginkonurnar ekkert á bakvið sig,“ segir Halla Guðrún Jónsdóttir hjá SaltPay þegar hún rifjar upp fyrstu árin eftir að kreditkort voru kynnt til sögunnar á Íslandi. 5. júní 2022 09:01
„Maður er bara uppalinn þannig að í fríum væri maður ekkert að hangsa“ „Síðan var ég með rauðan matarlit sem ég setti í ísinn og bauð þá upp á hvítan ís og bleikan ís sem fólk hélt þá að væri einhver jarðaberjaís,“ segir Jón Magnússon og skellihlær. 8. maí 2022 08:00
„Sætur sjarmör og frægur, ég féll alveg fyrir honum“ Garðar Guðmundsson fagnar 80 ára afmælinu sínu í dag. Garðar er af fyrstu kynslóð rokksöngvara. Þótti sækja sinn stíl til Tommy Steele og varð síðar nafnkunnur sem hinn íslenski Cliff Richards. 19. maí 2022 07:01
„Það var við múrinn sem hugmyndin vaknaði“ Lífshlaup og starfsferill Sigríðar Snævarr sendiherra hljómar eflaust eins og eitt stórt ævintýri fyrir marga. Ráðherrar, forsetar, njósnir, ísjaki til Parísar, Páfastóll í Róm, núvitund og nýsköpun, Harvard, Björn í ABBA og svo mætti lengi telja. Fyrir þann sem hefur auga fyrir ævintýrum og segir sögu sína út frá þeim, er hvert ævintýrið á fætur öðru í sögu sem þó er hvergi nærri lokið. 31. janúar 2021 08:00