Fréttastofa greindi frá málinu í gær.
Eldurinn kviknaði í sætum aftarlega í vagninum en búið var að slökkva hann þegar lögreglu bar að. Greindi vitni frá því að hafa sótt slökkvitæki á veitingastað nærri vettvangi og notað það til að slökkva eldinn.
Lögregla segir ökumann strætisvagnsins hafa fengið mikið áfall og andað að sér reyk. Var hann fluttur á Landspítalann til aðhlynningar.
Lögregla var einnig kölluð á vettvang í gærkvöldi þegar tilkynning barst um þjófnað á veitingastað í miðborginni. Þar var maður sagður hafa brotist inn á lager og stolið áfengisflöskum og bakpoka með „DJ-græjum“.
Gerandinn náðist á upptökur í öryggiskerfi og var handtekinn seinna um nóttina. Viðurkenndi hann brotið. Hann var í annarlegu ástandi og var vistaður í fangageymslum.
Um klukkan 22.30 voru afskipti höfð af öðrum manni í annarlegu ástandi í miðborginni. Sá var úti á miðri akbraut og neitaði fyrirmælum lögreglu um að fara af akbrautinni. Þá neitaði hann að segja til nafns eða gefa upp kennitölu.
Hann var þá handtekinn og færður á lögreglustöð.
Maðurinn upplýsti að lokum um kennitölu sína, var kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt og látinn laus.