Margt er um að vera í kvikmyndaveri RVK studios í Gufunesinu, þar sem kvikmyndin Snerting er meðal annars tekin upp. Myndin gerist á Íslandi, í London og Japan og fer jafnframt fram á þessum þremur tungumálum.
„Í dag erum við að taka senu þar sem þrjátíu manns eru inni á staðnum, það er afmælisveisla. Allir Japanir á Íslandi eru hér í aukahlutverkum. Þetta er besti staðurinn fyrir Japani til að „mingla“ að koma hingað og vinna með okkur,“ segir Baltasar Kormákur Baltasarsson, leikstjóri og eigandi RVK studios.

Settið er japanskur veitingastaður frá árinu 1969 staðsettur í London. Nákvæm eftirlíking af staðnum sjálfum. Senan er tekin upp í stúdíói tvö en þar má meðal annars finna flugvél og fjölda herbergja.
„Hérna er breskur bakgarður með múrsteinum og svona, þannig það er mikill töfraheimur víða.“
Þrjú stúdíó eru í kvikmyndaþorpinu en kvikmyndaverið er eitt það stærsta í Evrópu og möguleikarnir nær endalausir.

Er hægt að gera hvað sem er hérna?
„Já það er verið að gera Alaska hérna hinum megin, þannig það er nánast hægt að gera hvað sem er. Kvikmyndir eru svolítill töfraheimur. Harry Potter var meira og minna allur tekinn í stúdíói og núna með þessum þrem stúdíóum hérna þá er hægt að taka við svona verkefni.“
Atvinnuskapandi
„Það eru svona verkefni í sjóndeildarhringnum. Ég er í viðræðum við stórar sjónvarpsseríur og Hollywood myndir sem er mögulega hægt að taka hér. Það var alltaf draumurinn minn. Mig langaði alltaf að búa til aðstöðu þar sem ég gæti bæði stækkað íslenska bransann og líka tekið erlend alþjóðleg verkefni og gert þau hérna og þannig líka skapað atvinnu fyrir fullt af starfsfólki.“
Hann telur kvikmyndaverið mikið aðdráttarafl fyrir stórar erlendar framleiðslur auk íslenskra verkefna og þar skipti ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hækka endurgreiðsluna upp í 35 prósent sköpum.

Baltasar segir að það sé vegna þessa framlags sem bandaríska leikkonan Jodie Foster láti fara vel um sig í kvikmyndaverinu því tökur á þáttunum True Detective fara nú fram þar. Verkefnið gæti verið tekið í raun hvar sem er í heiminum.
„Sjáiði alla trukkana í kringum þetta. Það er út af þessu framtaki ríkisstjórnarinnar sem það er möguleiki að taka þessa þætti upp á Íslandi. Þetta er stærsta verkefni sem hefur verið gert í Íslandssögunni og það hefði ekki verið hægt án þess að vera með svona stúdíó til þess að taka á móti þessu þannig allt vinnur þetta saman.“
Kvikmyndaverin bókuð fram á vor
„Og í raun og veru eru öll þessi stúdíó, öll þrjú, bókuð fram á vor og ég er ekki búin að klára að byggja þau. Þannig þetta lítur mjög vel út en auðvitað er þetta dýr og stór framkvæmd þannig það þarf kannski meira en það.“

En þú ert viss um að hún borgi sig?
„Það verður bara að koma í ljós, þetta er bara vogun vinnur vogun tapar.“
Möguleikar á uppbyggingu séu miklir enda bjóði stærð kvikmyndaversins upp á að hægt sé að taka á móti nánast hvaða verkefni sem er.
„Möguleikarnir eru vissulega til staðar og það hefur verið talað um að margfalda kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi. Ég tel það raunhæft, það er algjörlega hægt. Það er að sýna sig að þetta eru störf sem ungt fólk leitar í, þetta er eftirsótt vinna og ég held að þetta sé frábær viðbót við efnahagslífið á Íslandi.“