Fótbolti

Öruggur sigur Argentínu en bras á Þjóðverjum gegn Óman

Smári Jökull Jónsson skrifar
Lionel Messi og félagar hans í Argentínu mæta fullir sjálfstraust á HM.
Lionel Messi og félagar hans í Argentínu mæta fullir sjálfstraust á HM. Vísir/Getty

Argentína vann 5-0 stórsigur á Sameinuðu arabísku furstadæmunum í vináttulandsleik í kvöld. Þjóðverjar lentu hins vegar í óvæntu basli með Óman.

Fjölmargir vinuáttulandsleikir í knattspyrnu fóru fram í kvöld enda stutt í HM og margar þjóðir á fullu í sínum lokaundirbúningi fyrir mótið sem hefst á sunnudag í Katar.

Argentína er eitt þessara liða en þeir mættu Sameinuðu arabísku furstadæmunum í Abu Dhabi í kvöld. Óhætt er að segja að Argentínumenn hafi sýnt mátt sinn og megin því þeir gengu frá leiknum í fyrri hálfleik.

Julian Alvarez skoraði fyrsta markið á 17.mínútu og Angel Di María bætti við tveimur mörkum áður en Lionel Messi skoraði rétt áður en flautað var til hálfleiks. Joaquin Correa skoraði fimmta markið í síðari hálfleik eftir að hafa komið inn sem varamaður í leikhléi.

Lokatölur 5-0 og ljóst að Argentína mætir vel undirbúið til leiks í Katar en margir hafa spáð þeim heimsmeistaratitlinum sem Lionel Messi þráir svo heitt.

Niclas Fullkrug sést hér skora sigurmark Þjóðverja í kvöld.Vísir/Getty

Þjóðverjar léku einnig í kvöld en þeir mættu Óman á heimavelli þeirra síðarnefndu í Muscat í kvöld. Þjóðverjar stilltu ekki upp sínu sterkasta liði en engu að síður var búist við öruggum sigri þeirra í kvöld enda þeir þýsku í 11.sæti á styrkleikalista FIFA en Óman í 75.sæti.

Sú varð þó ekki raunin. Staðan í hálfleik var markalaus og það var ekki fyrr en á 80.mínútu sem Niclas Fullkrug, leikmaður Werder Bremen, skoraði eina mark leiksins.

Þá unnu Pólverjar 1-0 sigur á Chile í leik sem fram fór í Póllandi. Krzysztof Piatek skoraði eina mark leiksins á 85.mínútu í leik þar sem Chile var sterkari aðilinn og Robert Lewandowski kom ekkert við sögu hjá Pólverjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×