Erlent

Ráð­leggja HM-gestum að nota ein­nota síma

Kjartan Kjartansson skrifar
Maður heldur bolta á lofti í Doha í Katar í aðdraganda heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem hefst þar í næstu viku.
Maður heldur bolta á lofti í Doha í Katar í aðdraganda heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem hefst þar í næstu viku. Vísir/EPA

Frönsk persónuverndaryfirvöld ráðleggja þeim sem ætla að sækja heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Katar að nota einnota eða tóma síma til þess að forðast að lenda upp á kant við þarlend yfirvöld. Sérfræðingar hafa varað við því að yfirvöld í Katar geti njósnað um fólk með tveimur forritum sem gestir þurfa að ná í.

Heimsmeistaramótið í Katar hefst á sunnudag. Ákvörðun Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA) um að fá Persaflóasmáríkinu mótið var afar umdeild en fulltrúum í framkvæmdastjórn sambandsins var mútað í stórum stíl. Þá hafa þúsundir verkamanna sem reistu leikvangana í Katar látið lífið og mannréttindi eru fótum troðin, þar á meðal réttindi hinsegin fólks og fjölmiðlafrelsi.

Nú segir franska persónuverndarstofnunin CNIL að hún ráðleggi þeim sem ætla að ferðast til Katar að hafa aðeins með sér einnota snjallsíma eða gamlan síma sem er búið að hreinsa af gögnum. Þá ættu ferðalangar ekki að taka neinar myndir á síma sína sem gætu strítt gegn ströngum siðgæðislögum sem gilda í Katar. Sérstaklega ættu ferðalangar að passa upp á myndir, myndbönd eða annað sem gæti komið þeim í klandur.

Netöryggissérfræðingar hafa bent á að tvö snjallforrit sem katörsk yfirvöld skylda HM-gesti til þess að ná sér í, eitt opinbert forrit mótsins og annað rakningarapp vegna kórónuveirufaraldursins, virki í raun sem njósnaforrit, að sögn Politico.

CNIL segir að þeir sem eigi ekki kost á að dauðhreinsa síma sína fyrir ferðalagið ættu aðeins að ná í forritin rétt fyrir brottför og eyða þeim um leið og þeir snúa aftur heim. Þeir ættu einnig að forðast að nota þjónustu sem krefst þess að þeir auðkenni sig, hafa sterk lykilorð og hafa síma alltaf á sér.

Fleiri hafa lýst áhyggjum af öryggi katörsku snjallforritanna, þar á meðal þýska utanríkisráðuneytið. Það segist nú kanna forritin ásamt persónuverndaryfirvöldum þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×