Aurskriða féll á Grenivíkurveg klukkan rúmlega hálf sex í morgun. Íbúi bæjarins Fagrabæjar, Guðmundur Björnsson, sem er rétt sunnan við þar sem skriðan féll sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag mikil læti hafi heyrst á svæðinu eftir skriðuna.
„Það voru svo mikil læti. Maður var bara hálfsmeykur. Maður verður ekkert voðalega stór þegar náttúruöflin eru annars vegar,“ sagði Guðmundur.
Þrír voru í bíl sem lenti í aurskriðunni en engan sakaði. Veginum var lokað í kjölfar aurskriðunnar. Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að óljóst sé hvenær byrjað verður að vinna að opnun vegarins.
„Ljóst er að skemmdir eru nokkrar, til dæmis á vegriðum. Þá þarf að aka efninu í burtu sem mun taka þó nokkurn tíma,“ segir í tilkynningunni.
Samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands er aurskriðan 160 metrar að breidd. Lögreglan og almannavarnir kanna nú hvort hætta sé á fleiri skriðum á svæðinu.