Fótbolti

Ronaldo og Messi voru ekki á sama stað þegar myndin fræga var tekin af þeim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi hittast ekki oft fyrir framan ljósmyndara.
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi hittast ekki oft fyrir framan ljósmyndara. Getty/Harold Cunningham

Lionel Messi og Cristiano Ronaldo eru þessa dagana að taka þátt í sínu fimmta og væntanlega síðasta heimsmeistaramóti í fótbolta.

Sumir sjá fyrir sér draumaúrslitaleik á milli Argentínu og Portúgals sem um leið yrði lokauppgjör á milli Messi og Ronaldo á vegferð þeirra að vera besti fótboltamaður allra tíma.

Þeir eiga báðir eftir að vinna heimsmeistaratitilinn en hafa orðið álfumeistarar með sínum þjóðum.

Messi komst alla leið í úrslitaleikinn fyrir átta árum en Ronaldo hefur lengst náð í undanúrslitaleikinn á HM 2006.

Messi og Ronaldo eru þegar orðnir, án mikils vafa, tveir af bestu fótboltamönnum allra tíma í heiminum og franski lúxus tískuframleiðandinn Louis Vuitton taldi við hæfi að mynda þá saman í upphafi þessa heimsmeistaramóts.

Myndin vakti mikla athygli en þar má sjá þá tvo sitja saman við skákborð að velta fyrir sér næsta leik. Undir myndinni stóð „Victory is a state of mind“ á ensku og spænsku eða „Sigur er sálarástand“ ef við reynum að þýða það.

Messi og Ronaldo settu báðir myndina inn á samfélagsmiðla sína á sama tíma og þeir sem sáu hana veltu strax fyrir sér hvenær þeir hittust til að taka myndina.

Ljósmyndarinn er hin heimsfræga Annie Leibovitz sem hefur tekið margar klassískar myndir fyrir Rolling Stone tímaritið svo eitthvað sé nefnt.

Leibovitz var þó aldrei með þá Messi og Ronaldo fyrir framan sig á sama tíma því knattspyrnusnillingarnir voru myndaðir í sitthvoru lagi.

Það má sjá hér fyrir neðan þar sem er myndband frá tökunum á myndinni á sitthvorum staðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×