Erlent

Mannskæður skjálfti í Indónesíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Slasað fólk á götum Cianjur í Indónesíu.
Slasað fólk á götum Cianjur í Indónesíu. AP/Firman Taqur

Minnst 46 eru sagðir hafa dáið og minnst sjö hundruð eru slasaðir eftir að sterkur skjálfti skók eyjuna Jövu í Indónesíu í morgun. Tugir bygginga munu hafa skemmst í skjálftanum og íbúar Jakarta, höfuðborgar Indónesíu flúðu út á götu í massavís.

Þó jarðskjálftar séu algengir í Indónesíu er sjaldgæft að þeir finnist í höfuðborginni.

Jarðskjálftasérfræðingar í Bandaríkjunum segja skjálftann hafa mælst 5,6 stig og að hann hafi orðið á um tíu kílómetra dýpi við miðju Jövu. Reuters segir að 25 eftirskjálftar hafi orðið á tveimur tímum í kjölfar stóra skjálftans.

Íbúar segja AP fréttaveitunni að hús hafi hrist mikið og þá sérstaklega hærri byggingar. Fólk hafi flúið þær hratt.

Mörg hús á eyjunni Java eru sögð hafa orðið fyrir skemmdum í skjálftanum.AP/Firman Taqur

Meðal þeirra bygginga sem Almannavarnir Indónesíu segja að hafi skemmst eru skólar, sjúkrahús og aðrar opinberar byggingar. Enn er verið að safna upplýsingum um mögulegt manntjón og skaða.

Jarðskjálftar, eldgos og flóðbylgjur leika 270 milljónir íbúa Indónesíu iðulega grátt Í febrúar skall 6,2 stiga skjálfti á í Indónesíu en þá dóu minnst 25 og rúmlega 460 særðust. Í janúar í fyrra dóu rúmlega hundrað manns og um 6.500 slösuðust í 6,2 stiga skjálfta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×