Fótbolti

Eins og það sé búið að blanda Gerrard og Lampard saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jude Bellingham var frábær í fyrsta leik enska landsliðsins á HM í Katar.
 Jude Bellingham var frábær í fyrsta leik enska landsliðsins á HM í Katar. Getty/Richard Heathcote

Enska landsliðið byrjaði HM í Katar með sex marka sýningu og ef það var einhver sem stimplaði sig inn í mótið betur en flestir þá var það miðjumaðurinn ungi Jude Bellingham.

Jude Bellingham skoraði fyrsta mark enska liðsins í 6-2 sigri á Íran og átti frábæran leik á miðjunni í sínum fyrsta leik á stórmóti. Það vantaði heldur ekki hrósið á hann eftir leik hjá reynsluboltum eins og Rio Ferdinand, Jermaine Jenas og Danny Murphy.

Ferdinand spilaði lengi með frábærum miðjumönnum eins og þeim Frank Lampard, Steven Gerrard, Paul Scholes og David Beckham og ætti því að þekkja þá.

„Við tölum um alla þessa frábæru miðjumenn sem við höfum spilað með og séð í enska landsliðinu á okkar tíma en enginn þeirra var að gera hluti á þessu stóra sviði eins og Jude er að gera á hans aldri,“ sagði Rio Ferdinand.

„Hann er með algjör yfirráð á miðjunni og spilar eins og hann sé miklu eldri en hann er. Hann er frábær fótboltamaður en að skila svona leik á HM á þessum aldri er allt annað,“ sagði Ferdinand.

„Ég er ekki að segja að hann sé betri eða eigi eftir að verða eins góðir og allir hinir en það er frábært að sjá hann spila svona á þessum tímapunkti á ferli sínum,“ sagði Ferdinand.

Bellingham átti fimmtán sendingar inn á síðasta þriðjung vallarins, 96 prósent sendinga hans heppnuðust og skoraði auðvitað fyrsta markið eftir flott hlaup af miðjunni.

„Bellingham er eins og við sáum þá einu sinni. Hann getur gert allt,“ sagði Jermaine Jenas.

„Hann er eins og blanda af Steven Gerrard og Frank Lampard í sama leikmanninum. Það er stór bónus fyrir Gareth Southgate að fá hann inn í þessu leikformi,“ sagði Jenas.

„Þegar þú ert að horfa á hann spilað þá er auðvelt að gleyma því hversu ungur hann er,“ sagði Danny Murphy.

„Þetta var fullkomin frammistaða hjá mjög spennandi leikmanni. Hann bauð upp á allt, hann fór í tæklingar, vann vel fyrir liðið, sendingarnar voru frábærar, hann skoraði og þetta var heilt yfir sérstakur dagur fyrir hann,“ sagði Alan Shearer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×