Fótbolti

Keane vonsvikinn með Kane og Bale: „Hefðu getað sent frábær skilaboð“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
FIFA leyfir fyrirliðabönd þar sem mismunun er mótmælt. Samt mega fyrirliðar liðanna á HM ekki styðja réttindabaráttu hinsegin fólks.
FIFA leyfir fyrirliðabönd þar sem mismunun er mótmælt. Samt mega fyrirliðar liðanna á HM ekki styðja réttindabaráttu hinsegin fólks. getty/Visionhaus

Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United og írska landsliðsins, varð fyrir vonbrigðum með að fyrirliðar Englands og Wales hafi ekki verið með „OneLove“ fyrirliðabandið í leikjum liðanna á HM í Katar í gær.

Fyrirliðar nokkurra liða á HM ætluðu að vera með „OneLove“ fyrirliðaband í leikjum sínum á HM, til stuðnings hinsegin fólks. FIFA hótaði þessum liðum sektum og svo að þeir sem væru með þetta band fengju gult spjald í upphafi leiks.

Í sameiginlegri tilkynningu frá Englandi, Wales, Hollands, Belgíu, Danmerkur, Þýskalands og Sviss kom fram að knattspyrnusamböndin væru tilbúin að borga sekt en ekki væri hægt að setja leikmenn í þá stöðu að fá gul spjöld fyrir að vera með „OneLove“ bandið.

Keane er sérfræðingur iTV um HM. Hann hefði viljað sjá Harry Kane og Gareth Bale, fyrirliða Englands og Wales, vera með „OneLove“ bandið og senda þar með skýr skilaboð.

„Ég held að leikmennirnir hefðu getað gert það fyrir fyrsta leikinn og taka refsinguna, sem hver hún var, á sig. Kane hefði vissulega hætt á að fá gult spjald en það hefði verið frábær yfirlýsing,“ sagði Keane.

„Gerðu þetta fyrir fyrsta leikinn og fáðu gula spjaldið. Þvílík skilaboð sem þú hefðir sent með því. Taktu refsingunni og haltu áfram í næsta leik. Ekki vera með það þá því þá áttu á hættu að fara í leikbann en ég held að þetta hafi verið stór mistök því Wales og England hefðu átt að standa í lappirnar og gera þetta. Burtséð frá pressu utan frá og frá knattspyrnusamböndunum, ef þetta er það sem þú trúir á sýndu það í verki.“

Bale skoraði jöfnunarmark Wales í leiknum gegn Bandaríkjunum sem endaði 1-1. England vann Íran, 6-2, þar sem Kane lagði upp tvö mörk. Næstu leikir beggja liða í B-riðli eru á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×