Í grein Foreign Policy er haft eftir embættismanni í Atlantshafsbandalaginu að þessar áhyggjur hafi aukist samhliða innrás Rússa í Úkraínu. Miðillinn segir að innan bandalagsins sé verið að ræða hvernig styðja megi við bakið á aðildarríkjum sem lendi í vandræðum með skotfærabirgðir sínar en á sama tíma hafi Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagt mikilvægt að styðja Úkraínumenn áfram með vopnasendingum.
Á tímum kalda stríðsins áttu Bandaríkin og bandamenn þeirra í Evrópu umfangsmiklar varabirgðir af vopnum og skotfærum, auk þess sem byggðir voru upp forðar af málmum og öðru sem til þarf að framleiða vopn og skotfæri í meira magni. Eftir fall Sovétríkjanna og aukna áherslu á baráttuna gegn hryðjuverkum lögð minni áhersla á þessar birgðir og dregið úr því magni sem haldið var til hliðar, bæði hvað varðar vopn og skotfæri og aðföng til að auka framleiðslu.

Efins um að auka framleiðslugetu
Þá segir FP að þrátt fyrir kröfur ráðamanna hafi forsvarsmenn vopnaframleiðenda dregið fæturna varðandi það að fjárfesta í aukinni framleiðslugetu af ótta við að aukin eftirspurn eftir Javelin-eldflaugum, Stinger-flugskeytum, fallbyssuskotum, HIMARS-eldflaugum og öðru, sé ekki varanleg.
Þessir forsvarsmenn eru sagðir óttast það að sitja uppi með stórar verksmiðjur og engar pantanir.
Ríki Evrópu hafa átt í sérstökum vandræðum með það að auka framleiðslu. Bæði vegna áhugaleysis og getuleysis. Vísað er til Frakklands og umræðu sem átti sér stað þar eftir að Frakkar sendu sextán CAESAR stórskotaliðsvopnakerfi til Úkraínu í sumar. Þar fór af stað umræða um að fylla upp í eyðurnar með því að auka framleiðslu en þá kom í ljós að framleiðslugetan var ekki til staðar.
Fyrrverandi aðstoðar-framkvæmdastjóri NATO, sagði í viðtali við Foreign Policy að í rauninni væru ekki mörg fyrirtæki í Evrópu sem gætu framleitt hlaup fyrir slík stórskotaliðsvopnakerfi.
Slík vopnakerfi hafa þó reynst þau áhrifamestu í átökunum í Úkraínu.

Skortur á skotfærum fyrir stórskotalið
Úkraínumenn eru taldir vera svo gott sem búnir með birgðir sínar af 152 millimetra sprengikúlum í stórskotaliðsvopnakerfi þeirra frá tímum Sovétríkjanna og reiða sig nú á sendingar frá Vesturlöndum á 155 mm kúlum í vestræn vopnakerfi sem einnig hafa verið send til þeirra.
Fregnir hafa sömuleiðis borist frá Moskvu af skorti frá skotfærum en Rússar hafa leitað til bæði Írans og Norður-Kóreu eftir meiri skotfærum.