Fótbolti

Van Dijk svarar gagnrýninni um fyrirliðaböndin: „Vil spila á stærstu mótunum“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Virgil van Dijk ber fyrirliðaband með orðunum „No Discrimination“ í staðin fyrir „OneLove.“
Virgil van Dijk ber fyrirliðaband með orðunum „No Discrimination“ í staðin fyrir „OneLove.“ Alex Grimm/Getty Images

Virgil van Dijk, fyrirliði hollenska landsliðsins í knattspyrnu hefur svarað þeirri gagnrýni sem hann og aðrir fyrirliðar hafa þurft að sæta eftir að ákveðið var að falla frá „OneLove“ fyrirliðaböndunum.

Van Dijk og fyrirliðar sex annarra landa sem ætluðu sér að bera fyrirliðaböndin hafa þurft að hlusta á mikla gagnrýni eftir að ákveðið var að böndin skyldu ekki notuð eftir að FIFA tók þá ákvörðun að þeir sem myndu bera böndin myndu fá gult spjald að launum.

Í staðin munu þessir fyrirliðar bera bönd sem bera orðin „No Discrimination“ eða „Enga mismunun“ og hafa fengið samþykki frá FIFA.

„Ég spila stöðu á vellinum þar sem það hjálpar alls ekki að fá gult spjald strax í upphafi leiks,“ sagði Van Dijk í samtali við hollensku sjónvarpsstöðina NOS þegar hann var spurður út í gagnrýnina. 

„Ég varð fótboltamaður af því að ég vil spila á stærstu mótunum. Það er fólk þarna sem segir að við þorum ekki að standa með sjálfum okkur, en það er bara ekki þannig.“

„Við viljum bara spila fótbolta. Ég hefði viljað spila með þetta fyrirliðaband, en ekki á kostnað þess að fá gult spjald,“ bætti Hollendingurinn við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×