Spán­verjar í sjöunda himni eftir stórsigur á Kosta Ríka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Spánverjar skoruðu mörkin, allavega í kvöld.
Spánverjar skoruðu mörkin, allavega í kvöld. Matteo Ciambelli/Getty Images

Spánverjar byrja HM í Katar vægast sagt af krafti en Spánn lagði Kosta Ríka með sjö mörkum gegn engu. Spánn hafði ekki unnið fyrsta leikinn á síðustu þremur stórmótum en bætti heldur betur fyrir það.

Dani Olmo kom Spánverjum yfir tiltölulega snemma leiks með stórbrotnu marki. Gavi lyfti boltanum inn fyrir vörn Kosta Ríka og Olmo lagði boltann fyrir sig með magnaðri móttöku og lyfti boltanum svo yfir Kaylor Navas sem kom askvaðandi út úr markinu.

Dani Olmo opnaði markareikning Spánverja í Katar.Elsa/Getty Images

Marco Asenso skoraði annað mark Spánverja tæpum tíu mínútum síðar. Jordi Alba fékk boltann úti á vinstri vængnum, gaf fyrir og Marco Asensio lagði boltann snyrtilega í fyrstu snertingu í netið.

Þriðja markið skoraði svo Ferrán Torres af vítapunktinum eftir að brotið var á Jordi Alba innan vítateigs. Þegar sléttur hálftími var liðinn af leiknum var staðan orðin 3-0 Spánverjum í vil og leikurinn svo gott sem búinn. Mörkin urðu þó ekki fleiri í fyrri hálfleik en í þeim síðari hélt markaveislan áfram.

Torres bætti við öðru marki sínu og fjórða marki Spánar á 54. mínútu. Hann nýtti sér þá skelfilegan varnarleik Kosta Ríka og skoraði auðvelt mark. Gavi bætti svo við fimmta markinu eftir stoðsendingu varamannsins Álvaro Morata. Ekki nóg með að Gavi sé yngsti leikmaður Spánar í sögu HM þá er hann líka yngsti markaskorari í sögu landsins.

Niðurlægingin var svo fullkomnuð undir lok leiks þegar Carlos Soler og Morata bættu við tveimur mörkum og fullkomnuðu 7-0 sigur Spánverja. Stærsti sigur HM í ár kominn í hús og verður að teljast ólíklegt að þetta verði leikið eftir.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira