Erlent

Til­laga Ís­lands og Þýska­land sam­þykkt af mann­réttinda­ráði SÞ

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, og Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, og Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í dag ályktun Íslands og Þýskalands um að sett verði á fót sjálfstæð og óháð rannsóknarnefnd sem safna á upplýsingum og gögnum sem nýst geta til að draga þá til ábyrgðar sem ofsótt hafa friðsama mótmælendur í Íran undanfarnar vikur.

Ályktunin var lögð fram á sérstökum aukafundi mannréttindaráðsins, sem Ísland og Þýskaland kölluðu eftir, til að ræða um hríðversnandi stöðu mannréttinda í Íran. Mótmælahrina hefur geisað í Íran síðan ung kona lést í haldi írönsku siðgæðislögreglunnar. Stjórnvöld hafa tekið mótmælendum af fádæma hörku og er talið að á fjórða hundrað hafi látið lífið síðan mótmælahrinan hófst, þar af um fjörutíu börn, og þúsundir sitja í varðhaldi.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, segir að með samþykkt ráðsins í dag hafi alþjóðasamfélagið sent klerkastjórninni í Teheran skýr og afdráttarlaus skilaboð.

„Hér áttum við frumkvæði að því að kalla til aukafundar í mannréttindaráðinu til að setja þetta mál á dagskrá til þess að afla upplýsinga um það sem er að gerast í Íran, sem er lykilatriði til að hægt sé að draga menn til ábyrgðar fyrir það sem þeir eru að gera. Hins vegar eru þetta líka sterk skilaboð til kvenna, barna og fólks í Íran sem er enn þá á hverjum degi að fara út að mótmæla og sterk skilaboð til fjölskyldna og þeirra sem hafa misst ástvini sína. Þetta eru líka mikilvæg skilaboð til að færa von til þeirra sem eru í baráttu sem ekkert okkar á að þurfa að taka en þau gera og þau hætta lífi sínu fyrir það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×