Fótbolti

Kane klár í slaginn og Englendingar geta andað léttar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Harry Kane er klár í slaginn er Englendingar mæta Bandaríkjamönnum á HM annað kvöld.
Harry Kane er klár í slaginn er Englendingar mæta Bandaríkjamönnum á HM annað kvöld. Alex Pantling/Getty Images

Stuðningsmenn enska landsliðsins í knattspyrnu geta andað léttar eftir að þjálfari liðsins, Gareth Southgate, tilkynnti að framherjinn og fyrirliðinn Harry Kane yrði klár í slaginn er liðið mætir Bandaríkjunum á HM í Katar annað kvöld.

Kane meiddist á ökla í síðari hálfleik er enska liðið vann öruggan 6-2 sigur gegn Íran í fyrsta leik liðsins á HM. Femherjinn hélt leik áfram eftir meiðslin, en þurfti síðar að fara af velli vegna þeirra.

Kane fór svo í myndatöku í gær og margir óttuðust að þessi næst markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi myndi missa af mikilvægum leikjum liðsins gegn Bandaríkjunum og Wales í B-riðli heimsmeistaramótsins. Gareth Southgate færði stuðningsmönnum liðsins þó þær fréttir fyrr í dag að það sé í lagi með Kane og að hann sé klár í slaginn annað kvöld.

„Það er í lagi með Harry. Hann er ekki búinn að æfa alveg á fullu með hópnum, en það verður allt í góðu á föstudagskvöld,“ sagði Southgate. „Hann fór í myndatöku til að ganga úr skugga um að allt væri í lagi.“

Kane er eins og áður segir næst markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi. Hann hefur skorað 51 mark í 76 leikjum fyrir liðið, aðeins tveimur minna en Wayne Rooney gerði á sínum tíma og því verður að teljast líklegt að hann hirði metið áður en heimsmeistaramótinu líkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×