Fótbolti

Szczesny tapaði veðmáli við Messi áður en hann varði vítið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wojciech Szczesny ver vítaspyrnu Lionels Messi.
Wojciech Szczesny ver vítaspyrnu Lionels Messi. getty/Clive Brunskill

Wojciech Szczesny veðjaði við Lionel Messi að hann myndi ekki fá vítaspyrnu í leik Argentínu og Póllands á heimsmeistaramótinu í Katar í gær. Hann segist skulda argentínska snillingnum hundrað evrur.

Í fyrri hálfleik var vítaspyrna dæmd á Szczesny fyrir að slá Messi í andlitið. Hann gerði sér hins vegar lítið fyrir og varði vítið.

Eftir leikinn greindi Szczesny frá því að á meðan atvikið var til skoðunar hafi hann veðjað við Messi að dómarinn myndi ekki dæma víti. Hann tapaði hins vegar veðmálinu eins og hann greindi frá eftir leikinn.

„Ég hélt að vítið yrði ekki dæmt. Við töluðum saman fyrir það og ég sagði honum að ég myndi leggja hundrað evrur undir að víti yrði ekki dæmt. Svo ég tapaði veðmálinu við Messi. Ég veit ekki hvort það er leyfilegt á HM. Sennilega verð ég dæmdur í bann.“

Argentína vann leikinn, 0-2, en bæði lið fóru áfram. Pólland endaði með jafn mörg stig og Mexíkó en örlítið betri markatölu. Pólverjar mæta heimsmeisturum Frakka í sextán liða úrslitum.

Szczesny hefur átt frábært mót og varið tvær vítaspyrnur. Hann varði einnig frá Salem Al-Dawsari í leiknum gegn Sádí-Arabíu í annarri umferð riðlakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×