Rafmyntir eins og bitcoin byggja á svokölluðum námugreftri þar sem tölvur vinna og staðfesta viðskipti og fá í staðinn nýjar myntir fyrir viðvikið. Ferlið er gríðarlega orkufrekt. Áætlað er að árleg rafmagnsnotkun við rafmyntagröft í heiminum jafnist á við Austurríki.
Á meðan gengi rafmynta var hátt fjármögnuðu bitcoin-grafarar sig að langmestu leyti með veðum í tölvunum sjálfum. Blooomberg segir að grafararnir hafi tekið allt að fjóra milljarða dollara að láni út á námubúnað sinn á meðan hagnaðarhlutfall þeirra var sem hæst.
Gengi rafmynta tók dýfu í vor og aftur í nóvember þegar FTX, þriðja stærsti rafmyntaskiptimarkaðurinn, var tekinn til gjaldþrotameðferðar. Talið er að FTX skuldi fimmtíu stærstu fjárfestum sínum um 3,1 milljarð dollara. Nokkur rafmyntafyrirtæki hafa lagt upp laupana vegna vandræða FTX síðan þá. Virði bitcoin hefur nú fallið um 75 prósent frá því að það var sem hæst í fyrra.
Til þess að bæta gráu ofan á svart er orkuverð í heiminum í hæstu hæðum sem eykur rekstrarkostnað rafmyntagrafara og aukin samkeppni er á sýndareignamarkaðinum.
Engum öðrum eignum til að dreifa
Nú er svo komið að rafmyntagrafarar lenda í greiðsluþroti í hrönnum. Margir rafmyntalánveitendur horfa nú fram á verulegt tap þar sem þeir geta ekki gengið að neinum öðrum eignum en tölvunum sem hafa hríðfallið í verði frá því í nóvember, að sögn Bloomberg.
Þannig sagðist Iris Energy Ltd., rafmyntanámufyrirtæki í Ástralíu búast við því að standa ekki í skilum á 108 milljón dollara láni sem var að mestu leyti tryggt með graftartölvum.
Eftir sitja lánadrottnarnir með námubúnað sem þeir þurfa annað hvort að selja með miklum afslætti eða koma fyrir í gagnaverum til þess að grafa eftir myntum sjálfir. Tapið fyrir þá gæti orðið enn meira vegna offramboðs á vélunum.
Reikna má með að fleiri fari í þrot á næstunni. Erfitt er þó að henda reiður á umfang vandans. Einkahlutafélög standa fyrir um 75 prósentum af vinnslugetu bitcoin-bálkakeðjunnar og upplýsingar um skuldir þeirra og veð liggja ekki fyrir opinberlega.