Við sögðum í síðustu viku frá áformum Landsvirkjunar um að hefja framkvæmdir við Hvammsvirkjun í Þjórsá næsta sumar. En fyrirtækið áformar einnig aukna raforkuframleiðslu á Norðurlandi með stækkun jarðgufuvirkjunarinnar á Þeistareykjum, sem Hörður Arnarson forstjóri segir hafa reynst mjög vel.
„Og erum að áforma stækkun þar og munum hefja boranir þar í sumar,“ segir Hörður í viðtali í fréttum Stöðvar 2.
Þá hefur fyrirtækið lengi horft til þess að virkja vindorkuna meira með fleiri vindmyllum við Búrfell.
„Búrfellslundur var settur í nýtingarflokk í rammaáætlun núna í júní. Við höfum mikinn áhuga á að halda þar áfram og erum bara í að vinna að leyfisveitingum þar.“
Þá hefur Landsvirkjun einnig verið að skoða betri nýtingu vatnsafls á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og hefur núna sett stefnuna á stækkun Sigölduvirkjunar sem einnig fékk grænt ljós í rammaáætlun.
„Það ætti að vera hægt að komast í það á næstu árum. En við erum líka að horfa til þess að stækka hana um fimmtíu megavött.“
Samhliða Hvammsvirkjun hafði Landsvirkjun lagt drög að tveimur öðrum vatnsaflvirkjunum í Þjórsá, Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun.
En eru ráðamenn fyrirtækisins farnir að huga að annarri stórri vatnsaflsvirkjun, auk Hvammsvirkjunar?
„Nei. Þessi fjögur verkefni eru mjög umfangsmikil. Og við erum með önnur verkefni sem eru ekki komin í nýtingarflokk í rammaáætlun. Þannig að við erum að vinna þar áfram í þeim. En þessi verkefni eru mjög umfangsmikil, ef við komumst í þau,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: