„Ég hef alltaf verið umkringd börnum,“ segir Björk sem á sex yngri hálfsystkini. Hún á tvö börn, þau Sindra Eldon, 37 ára og Ísadóru Bjarkardóttur Barney sem er tvítug en í janúar 2019 eignaðist Sindri sitt fyrsta barn með eiginkonu sinni Morgan Johnson.
Í samtali við The Times segir Björk segir ömmuhlutverkið hafa bætt miklu við líf sitt.
„Það sem kom mér mest á óvart var hversu stórkostlegt þetta er, bónuspartur við lífið sem fólk talar eiginlega ekki mikið um. Þetta er alveg jafn ótrúlegt og að eignast sín eigin börn.“
Börnin hennar tvö, Sindri og Ísadóra syngja bakraddir á nýjustu plötu Bjarkar, Fossora sem kom út fyrr á árinu. Aðdragandinn að því var sá að þau þrjú eyddu miklum tíma saman á meðan Covid-faraldurinn var í gangi.
„Ég varði miklu meiri tíma með krökkunum mínum heldur en venjulega. Þau voru hluti af þessu, þannig að það hefði verið skrítið að sleppa þeim.“ segir Björk.
Sótti meðferð hjá sálfræðingi
Þá ræðir hún einnig upplifun sína af því þegar börnin hennar uxu úr grasi og flugu úr hreiðrinu.
„Eina stundina þurfa þau ekkert á þér að halda og horfa á þig og ranghvolfa augunum og tveimur dögum seinna þurfa þau hjálp við að fylla út skattframtalið sitt.“
Björk kemur einnig inn á erfiða tíma í lífi sínu, þar á meðal skilnað sinn við listamanninn Matthew Barney. Björk segist hafa sótt meðferð hjá sálfræðingi til að takast á við álagið sem því fylgdi og reyndist það mikið gæfuspor.
„Þetta er frábært verkfæri til að grípa í og ég er mjög hrifin af því. Það hafa vissulega verið tímapunktar í mínu lífi þar sem ég hef þurft meira á því að halda en aðrir, til dæmis þegar foreldrar mínir skildu, og svo bara almennt út af hinu og þessu. Síðan varð þetta bara stöðugur, fastur hluti af tilverunni.“