Upphaf málsins má rekja til þess að í október upphófst mikil mótmælaalda meðal nemenda í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Nokkrir ungir drengir voru sakaðir um kynferðisbrot og voru nöfn þeirra meðal annars skrifuð á spegla og á blöð sem hengd voru á ganga skólans. Skólayfirvöld voru harðlega gagnrýnd fyrir aðgerðarleysi.
Atburðarrásin náði hámarki 6 október síðastliðinn, þegar nemendur skólans yfirgáfu kennslustofur og söfnuðust saman út á skólalóð ásamt nemendum úr öðrum framhaldsskólum. Mennta- og barnamálaráðherra mætti á staðinn og í ræðu sinni bað hann nemendur afsökunar á að hafa ekki hlustað á þau.
Urðu fyrir einelti og útilokun
Sérstakur ráðgjafahópur var stofnaður til að fara ítarlega yfir málið. Í skýrslu nefndarinnar sem birt var í dag á vef MH kemur fram að í sumum tilvikum hafi engar skýringar eða upplýsingar komið fram um ástæður þess að nöfn nemenda voru rituð á speglana eða þau með öðrum hætti tengd umfjölluninni. Í þeim tilvikum hafi heldur engar kvartanir bortist vegna kynferðislegri áreitni eða ofbeldi viðkomandi nemenda.
Niðurstaða ráðgjafahópsins var sú að þeir nemendurnir sem tilkynntu um málið hafi verið orðið fyrir einelti og útilokun við það að nöfn þeirra hafi komið fram tengt umfjölluninni.
„Við höfum ekki hlustað“
Katrín S. Kristjana Hjartardóttir, framkvæmdastjóri sambands íslenskra framhaldsskólanema segir það stórt vandamál að verið sé að nota ásakanir um kynferðisofbeldi sem tæki til útskúfunar og eineltis.
„Þess vegna erum við að vinna þetta með svona ótrúlega stórum hóp, með landlækni, stígamótum, lögmönnum, ráðuneytinu öllu. Ég held að ef við gerum þetta rétt þá sé þetta ekki áhyggjuefni. Þetta snýst allt um fræðslu og þekkingu.“
Hvaða lærdóm telur þú að þú að sé hægt að draga af þessu máli?
„Það eru að verða siðaskipti á Íslandi í umræðunni um kynferðisofbeldi. Við höfum ekki hlustað á ungt fólk þegar það hefur beðið um aðstoð. Því hefur ekki verið mætt nógu vel i kerfinu og þetta eru viðbrögð við því. Þetta eru viðbrögð við kerfinu og við höfum ekki hlustað.“
Í klippunni hér að neðan má sjá myndband frá mótmælunum við MH 6.október síðastliðinn.